151. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2020.

aðgerðir gegn atvinnuleysi.

[15:13]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir þessa fyrirspurn. Ég get tekið undir margt sem kom fram í máli hennar, sérstaklega um erfiða stöðu leigjenda. Ég vil taka það fram að í tíð þessarar ríkisstjórnar voru atvinnuleysisbætur hækkaðar, fyrst um 27%, síðan aftur núna frá og með áramótum og munu hækka um 35% á kjörtímabilinu. Enn fremur var ákveðið að framlengja sérstakan stuðning vegna barna atvinnuleitenda sem er hugmynd sem þingmaðurinn lagði fram í fyrra, ef ég man rétt, eða í vor og var framlengd núna. Það er mjög mikilvægt að við styðjum við fólk sem verður fyrir því áfalli að missa vinnuna og um leið að við hugum að því að örva fjárfestingar í samfélaginu þannig að við getum tryggt að atvinnuleysi verði ekki langtímaböl. Það er að mínu viti stærsta hættan sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir, að atvinnuleysi verði langtímaböl. Þessar breytingar fyrir atvinnuleitendur eru þó ekki þær einu sem höfum gert til að koma til móts við tekjulægri hópa. Ég vil minna á skattkerfisbreytingar sem við lögfestum í kringum lífskjarasamningana en síðari hluti þeirra mun koma til framkvæmda um komandi áramót og gagnast fyrst og fremst tekjulægri hópum. Barnabætur eru sömuleiðis hækkaðar í þeim fjárlögum sem við afgreiðum nú. Skerðingarmörkin hækka sem er mjög mikilvægt því að það skiptir líka máli að styðja við tekjulægri hópa þegar kemur að þeim sem eiga mörg börn.

Hvað varðar stuðningslánin sem hv. þingmaður spyr sérstaklega um þá átti ég ágætan fund með fulltrúum VR þar sem þau kynntu þessar hugmyndir. Þær munu verða teknar til skoðunar í hópi sem félags- og barnamálaráðherra er að setja á laggirnar og er ætlað að fara yfir stöðu heimilanna. Þar er ætlunin að fara yfir sviðið í raun og veru og skoða hvað kemur þessum hópi best en þessar hugmyndir verða þar á meðal teknar til skoðunar.