151. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2020.

markmið í loftslagsmálum og orkuframleiðsla.

[15:27]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni og formanni umhverfis- og samgöngunefndar sem virðist líta svo á að leiðin til að ná markmiðum okkar í loftslagsmálum snúist um að leggja hálendið allt undir vatnsaflsvirkjanir. Ég skil spurningu hv. þingmanns þannig og ég er ekki sammála þeim forsendum sem hv. þingmaður gefur sér. Ég held að þetta geti vel farið saman. Í fyrsta lagi hefur þessi ríkisstjórn, eins og hv. þingmanni er kunnugt, lagt áherslu á að styrkja flutningskerfið, sem er ekki vanþörf á, og erum m.a. að setja hér inn tillögur að breytingum um það hvernig við getum tekið slíkar ákvarðanir með skilvirkari hætti. Sú styrking mun gefa okkur færi á að nýta orkuna miklum mun betur en við erum að gera í dag því að það er töluverð sóun í kerfinu eins og það er núna.

Í öðru lagi snýst samdráttur í losun ekki bara um að framleiða meiri orku heldur að nýta orkuna öðruvísi. Þar erum við ekki eingöngu að tala um rafmagn. Við erum líka að tala um aðra þætti, svo sem vetni, metan o.fl., því að það eru ólíkir orkugjafar sem þarf til þess að ná árangri í ólíkum greinum út frá orkuskiptum.

Síðan þegar kemur að kolefnishlutleysi, sem er aðeins annað markmiðið en það sem lýtur að beinum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda, þá sé ég eiginlega ekki hvernig þjóðgarður kemur við sögu því að þar erum við að tala um í fyrsta lagi landgræðslu, skógrækt, niðurdælingu á kolefni. Allt er það eitthvað sem ég tel að við höfum full færi á að gera og gera meira af og gera betur en við gerum nú. Í raun og veru eru markmið Íslands í loftslagsmálum eins og þau voru kynnt hér á laugardag, markmið sem ég hef ekki heyrt betur en að sé nokkuð góð samstaða um á þinginu, sem ég er ánægð með, ég tel mjög raunhæft að ná þeim og það án þess að ráðist sé í stórfellda orkuframleiðslu. Þar með er ég ekki að útiloka að það þurfi að afla frekari orku til framtíðar. Ég held að það sé þannig að við erum bara komin fram hjá þeim tíma (Forseti hringir.) að við þurfum að stilla okkur upp í tvö ólík lið þegar við tölum um náttúruvernd og orkuframleiðslu. Þarna skiptir máli að finna jafnvægi milli sjónarmiða og ég tel frumvarp (Forseti hringir.) ráðherrans um miðhálendisþjóðgarð raunar gera það.