151. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2020.

kynrænt sjálfræði.

22. mál
[17:46]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Rangfærslan kom nú eiginlega fram í því að líta svo á að heilbrigðisstarfsfólk væri ósátt við málið og hefði ekki komið að samningu þess. Ég held að í rauninni kristallist ólík sýn mín og líklega annarra sem skrifa undir nefndarálit þetta og hv. þingmanns í því þegar hann gagnrýndi titilinn á lögunum, sem fjalla jú um breytingu á lögum um kynrænt sjálfræði, ódæmigerð kyneinkenni, og hv. þingmaður nefndi að það gæti frekar heitið börn með meðfædda kvilla sem unnt er að lækna. Málið snýst einfaldlega um það að í langflestum tilfellum snúast ódæmigerð kyneinkenni ekki um kvilla heldur um fjölbreytileika mannflórunnar og það er um hana sem er verið að fjalla og henni er óþarfi að breyta.

Það eru hins vegar einstaka atriði sem sérstaklega er fjallað um í frumvarpinu sem kunna að lúta öðrum lögmálum og nefndin leggur til að þar verði hægt að gera ákveðnar aðgerðir, það þurfi að skrá það vel niður, það þurfi að liggja fyrir upplýsingar um það og svo þurfum við með bættri þekkingu að endurskoða það verklag. Það sem frumvarpið fjallar fyrst og fremst um er að við hér á Alþingi staðfestum það og samþykkjum að fólk er alls konar.