151. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2020.

kynrænt sjálfræði.

22. mál
[18:49]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé hugsanlega einhver pínulítill ruglingur hjá hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni vegna þess að það frumvarp sem við ræðum núna snýst eingöngu um það þegar um er að ræða ódæmigerð kyneinkenni og lýtur þá meira að svokölluðum intersex einstaklingum. Þetta snýst ekki um kynvitund vegna þess að hv. þingmaður nefndi hér áðan aðila sem hafði látið breyta sér í konu en er fæddur í líkama karlmanns. Við erum ekki að ræða um kynvitund heldur ódæmigerð kyneinkenni. Fyrst vil ég segja það.

Mér mér finnst gott að við séum að ræða þetta mál og taka okkur tíma í það, þetta er svolítið skrýtið og þetta er svolítið nýtt fyrir mörgum. En á bls. 14 er einmitt fjallað um reynslu fólks sem fæðist með ódæmigerð kyneinkenni, hve mikil leynd og skömm hefur hvílt yfir því að vera fæddur svona. Þessi lagasetning er liður í því að ræða þessi málefni, gera aðra sem þekkja þetta ekki af eigin reynslu meðvitaðri og þar með auka umburðarlyndi og skilning á þessu. Eins og kemur líka fram á bls. 13 þá er verið að færa réttinn til barnsins meira en hefur verið.

Þingmaðurinn sagði áðan að verið væri að taka eitthvað frá foreldrunum en það er ekki rétt. Ég vil snúa þessu við. Við erum að færa réttinn til barnsins, þetta er líkami barnsins en ekki foreldranna. Það kemur einnig fram að málsmeðferðin sem lögð er til er mjög vönduð. Ég ætla ekkert að lesa hana hér upp. Og svo kemur fram í 11. gr. að endurskoðun eigi að fara fram á þessu öllu saman eins fljótt og hægt er, þegar einhver reynsla er komin á það hvernig lögin eru að virka. Ég held því að við séum með mjög gott mál í höndunum.