151. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2020.

kynrænt sjálfræði.

22. mál
[18:52]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og áminninguna um það um hvað málið snýst. En ég er alveg klár á því um hvað málið snýst. Ég nefndi þetta dæmi til að segja að við þekkjum fólk sem hefur glímt við alls konar vanda í æsku og jafnvel fram á fullorðinsár, og í þessu tilviki erum við að tala um þann vanda að fæðast með ódæmigerð kyneinkenni. Það er gerð aðgerð á viðkomandi og hann þarf að lifa með því það sem eftir er eða þar til hann getur tekið ákvörðun um að fara í aðra aðgerð. Hinn vinkillinn er að sú aðgerð er ekki gerð og þegar einstaklingurinn er orðinn 12 ára, eða eldri ef því er að skipta, fer hann að velta því fyrir sér hvort hann vilji fara í aðgerð og breyta þessum kyneinkennum eða eitthvað slíkt. Ég hef áhyggjur af þessum árum þarna í upphafi. Ég er ekki að segja að ég sé alvitur í þessu. Ég hef bara áhyggjur af því að þarna sé verið að búa til ný vandamál er snúa að þessum börnum á mótunarárum þeirra í samfélaginu, ég er ekki endilega að meina mótunarárum varðandi þeirra vitund.

Við þekkjum allt of mörg hve einelti getur haft slæm áhrif á fólk og sérstaklega á börn. Mér finnst við ekki vera að gera þeim börnum sem um ræðir neinn greiða með þessu frumvarpi, eins og ég skil það, mér finnst það geta aukið hættuna á einelti. Eins og hv. þingmaður segir er bara gott að við séum að skiptast á skoðunum um þetta og það er ósköp eðlilegt að við höfum skiptar skoðanir á þessu máli.