151. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2020.

kynrænt sjálfræði.

22. mál
[20:38]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ég er ekki enn byrjaður á víðtækasta kafla frumvarpsins, sem fjallar um einstakar greinar þess. Í þeim kafla er langmest af því sem ástæða er til að gera athugasemd við og sætir textinn oft á tíðum furðu. Eins og ég nefndi í fyrstu ræðu minni er í raun með ólíkindum að forsætisráðuneytið skuli hafa sent annað eins frumvarp frá sér en mér skilst að yfirstjórn þingsins sé mikið í mun að klára þingstörf sem fyrst og vilji sem minnsta umræðu um þetta mál. Því skal ég reyna að liðka fyrir þingstörfum þó að það feli í sér að þetta mál fái ekki þá umræðu sem ástæða væri til, enda höfum við séð að þetta mál er þess eðlis að fulltrúar stjórnarflokkanna virðast umfram allt vilja forðast umræðu um það. Ekki einn þingmaður Framsóknarflokks eða Sjálfstæðisflokks hefur haldið ræðu í þessu máli hér í 2. umr. Ekki einn. Þó eru þetta flokkarnir sem leggja málið fram ásamt Vinstrihreyfingunni – grænu framboði.

En þegar farið er yfir kaflann um einstakar greinar frumvarpsins sjáum við enn betur en áður hvað liggur að baki hverri grein fyrir sig og það er allt á sömu bókina lært. Þetta byggist ekki á læknavísindum, þetta byggist ekki á því hvað er barninu fyrir bestu, þetta byggist á því að innleiða hér ákveðna öfgastefnu þar sem allir fæðingarkvillar barna sem tengjast þvagfærum eða kynfærum eru settir í sama hóp, að frátöldum tveimur atriðum, of stuttri þvagrás eða vaxtarheftum limum á drengjum, en nefndin hefur hins vegar gert okkur alveg ljóst að gluggum fyrir slíka meðferð verði væntanlega lokað fyrr en síðar og í meirihlutaálitinu, sem ég mun væntanlega ekki hafa tíma til að fara yfir þó að fullt tilefni hefði verið til, ítrekar nefndin mikilvægi þess að sem fyrst verði tekin ákvörðun um hvort fella eigi úr lögunum þessi sérákvæði sem geta stórkostlega bætt lífsgæði margra barna. Hverjir eiga að meta það? Jú, það eru þeir sem vildu ekki hafa heimildina til staðar samkvæmt umræðu í nefndinni og fyrirliggjandi umsögnum.

Í kaflanum um einstakar greinar frumvarpsins birtist m.a. þessi setning, með leyfi forseta:

„Skilgreiningin er ekki í grundvallaratriðum læknisfræðileg heldur byggist á því að kyn sé að verulegu leyti félagslegt fyrirbæri.“

Fleiri áhugaverðar setningar birtast þarna, þær birtast reyndar í röðum, m.a. þegar fjallað er um 4. gr. þar sem segir, með leyfi forseta:

„Með ákvæðinu er meðal annars lagt bann við aðgerðum sem hafa þann eina tilgang að ákvarða kyneinkenni barns sem ýmist „karlkyn“ eða „kvenkyn“.“

Ef barn fæðist augljóslega kvenkyns eða karlkyns með einhvern fæðingargalla eða -kvilla sem hægt er að laga þá má ekki gera það, því að með því er barninu ýtt enn frekar í þá átt að tilheyra öðru hvoru kyninu.

Svo segir um heilsufarslegar ástæður:

„Við gerð frumvarpsins var lagt mat á hvort rétt væri að takmarka þessar heimildir til varanlegra breytinga á ódæmigerðum kyneinkennum án samþykkis barns við „brýnar“ heilsufarslegar ástæður. Þótti slíkt hins vegar varhugavert enda ekki tilgangur frumvarpsins að takmarka rétt barna til heilbrigðisþjónustu að neinu leyti.“

Hér felst í þessum texta, sérstaklega þegar litið er á aðdragandann, ákveðin þversögn en ég geri ráð fyrir að þetta sé afleiðing af ábendingum læknanna sem þó fengu að koma að þessu og afstöðu þeirra er lýst á næstu blaðsíðum þar sem menn reyna sitt besta til að útskýra mikilvægi þess að börn hafi þó möguleika á ákveðnum aðgerðum, (Forseti hringir.) þ.e. möguleikana sem skilaboð nefndarinnar segja okkur að beri að taka út.