151. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2020.

bætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum.

211. mál
[21:09]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Frú forseti. Ég fagna auðvitað því verki sem hér hefur verið unnið síðustu árin varðandi uppgjör við þann stóra hóp sem var vistaður á stofnunum ríkisins fyrir svo löngu síðan. Komið hefur í ljós að margt var þar gert sem hið opinbera ber í raun og veru ábyrgð á. Með þessum lögum er að sjálfsögðu verið að ganga frá hluta af þessu máli. Það sem ég hef bent á og nefndin tekur reyndar til umfjöllunar í nefndarálitinu eru þau börn sem út af standa. Stór hluti þeirra eru börn sem var ráðstafað á einkaheimili fyrir milligöngu opinberra aðila, kannski allra helst en þó ekki alfarið fyrir tilstilli barnaverndarnefnda. Ég fagna því sérstaklega, frú forseti, að nefndin skyldi taka þetta til umfjöllunar í umræðu um málið þegar frumvarpið kom fyrst til umræðu, m.a. eftir ábendingu frá mér og ekki bara mér heldur fleirum. Eins og kemur fram í nefndarálitinu stendur vilji nefndarinnar til þess að þetta verði einnig tekið til skoðunar og tek ég heils hugar undir það. Þegar umsagnir sem bárust til nefndarinnar vegna frumvarpsins eru skoðaðar kemur þetta einnig fram hjá umsagnaraðilum, ég held hreinlega öllum.

Barnaverndarstofa skilaði inn umsögn og ég ætla, með leyfi frú forseta, að lesa úr þeirri umsögn hvað þetta varðar:

„Að mati stofunnar er nauðsynlegt að sá hópur einstaklinga sem vistaður var af hálfu stjórnvalda, þ.e. barnaverndaryfirvalda, á einkaheimilum á barnsaldri, fái sömu tækifæri og aðrir einstaklingar sem vistaðir voru á barnsaldri á stofnunum á vegum hins opinbera til að tjá sig um dvöl sína á þeim heimilum sem þeim var ráðstafað á […] Kemur þar jafnframt fram að dæmi séu um að fötluð börn hafi einnig verið vistuð á einkaheimilum til lengri eða skemmri tíma. Liggur því ljóst fyrir að fjöldi barna var ráðstafað af stjórnvöldum á einkaheimili, og segir sagan að það eigi jafnframt við um börn sem vistuð voru vegna fötlunar sinnar. Með vísan til þessa telur stofan mikilvægt að sá hópur barna sem vistaður var af opinberum aðila á einkaheimilum, bæði vegna fötlunar og annarra ástæðna, fái jafnframt að gera upp vistun sína á slíkum heimilum með þeim hætti að hið opinbera búi til vettvang þar sem þau geta greint frá uppvexti sínum og aðstæðum á umræddum heimilum, líkt og einstaklingum sem vistaðir voru á barnsaldri hefur verið gert kleift.“ — Það er með þeim aðgerðum sem við fjöllum um hér. Barnaverndarstofa tekur því undir þetta og bendir á þetta.

Síðan kemur umsögn frá umboðsmanni barna. Ég ætla að lesa smá kafla þar úr, með leyfi forseta:

„Tilgangur bótauppgjörs af þessu tagi er tvíþættur. Annars vegar er um að ræða samfélagslegt uppgjör sem hefur þann tilgang að opinbera og viðurkenna að fötluð börn hafi sætt kerfisbundnu ofbeldi í umsjá hins opinbera, þannig að draga megi af því lærdóm, og fyrirbyggja að sambærilegar aðstæður skapist aftur. Hins vegar er um að ræða viðleitni í þá átt að bæta þeim einstaklingum sem um ræðir, það gríðarlega tjón sem þeir urðu fyrir, sökum þess að hið opinbera brást þeim og sinnti ekki þeirri skyldu sinni, að tryggja fötluðum börnum rétt þeirra til umönnunar og verndar.“

Eftir að ég hef lesið þessar tvær umsagnir, frú forseti, er ég enn harðari í þeirri afstöðu minni — og nefndin gefur þar auðvitað upp boltann í nefndaráliti sínu — að við verðum að klára þetta mál svo að vel fari hvað varðar öll börn sem hið opinbera kemur að einhverju leyti að, eins og við gerum í þessu lagafrumvarpi en einnig varðandi þau börn sem hið opinbera hefur með einhverjum hætti ráðstafað annað og, í því tilviki sem ég er að tala um, inn á einkaheimili.

Í nefndarálitinu er talað um að skilin þarna á milli séu oft ekkert mjög skýr. Það kann vel að vera rétt. Nefndin fjallar einnig um að þetta séu orðin gömul tilvik, einstaklingar séu látnir, það sé ekki skýrsluskylda og ekki varðveisluskylda á upplýsingum eða skýrslum. Það eru því ýmis ljón á veginum. Þess þá heldur, frú forseti, liggur á því að hefja þetta verk. Ég vil brýna okkur þingmenn til að klára þetta mál vegna þess að orðið sem kemur fram í sviga við þessa lagabreytingu, þ.e. lokauppgjör, á ekki við. Það á ekki við vegna þess að það stendur ýmislegt út af eins og ég hef bent hér á og gerði við 1. umr. málsins.

Ég ætla einnig að benda á þriðju umsögnina sem bendir til þess að ýmislegt standi út af, ekki einungis það sem ég er að tala um heldur ýmislegt annað. Það er umsögn frá Viðari Eggertssyni. Ég ætla að lesa aðeins úr henni en Viðar er að vekja athygli á vöggustofunni í Hlíðarenda. Nú hef ég ekki rannsakað hvað hún er nákvæmlega, hvort hún hafi verið rekin á vegum hins opinberra, hvernig hún var rekin eða hvenær. Hann segir það hafa verið um miðja 20. öld. Ég ætla bara að lesa um meðferðina á þessum ungbörnum sem hann lýsir í umsögn sinni. Þetta voru mjög ung börn. Hann segir, með leyfi forseta:

„Ungbörnin mátti helst ekki snerta. Ekki taka þau upp nema til nauðsynlegra verka. Þau voru höfð í rúmum sínum lungann af sólarhringnum. Ekkert annað var í herbergjunum annað en rúmin þeirra. Ekkert sem örvaði skynjun þeirra, ekki litir, ekki myndir, ekki leikföng. Foreldrar máttu koma í heimsókn einu sinni í viku í stutta stund hverju sinni. Þeir máttu þó ekki snerta börnin, ekki koma inn í herbergin þeirra. Heldur standa fyrir utan húsið, leggjast á gluggana í von um að koma auga á börnin sín og ná við þau augnsambandi, sem ekki tókst þó alltaf, því börnin þekktu yfirleitt ekki þetta „ókunnuga“ fólk, sem þjáðist þarna í hvaða veðri sem var og horfði örvæntingarfullt á þau.“

Það er því ýmislegt eftir, frú forseti. Ég vil bara hvetja okkur þingmenn til að standa þannig að málum að þetta verði klárað alla leið. Hið opinbera verður að viðurkenna, rannsaka og upplýsa og sýna svo viðleitni í að bæta eins og hægt er það tjón sem það hefur valdið með þessu.