151. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2020.

listamannalaun.

310. mál
[21:22]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F):

Frú forseti. Við fjöllum nú um breytingu á lögum um listamannalaun en eins og allir vita hefur kórónuveirufaraldurinn haft veruleg áhrif á okkur öll, allt atvinnulíf en ekki síst atvinnutækifæri sjálfstætt starfandi listamanna. Þegar samkomubannið var sett á í mars sl. varð fjöldi þeirra atvinnu- og verkefnalaus og í raun vitum við ekki enn hvernig þau mál þróast þannig að þessi hópur hefur verið nánast án verkefna mánuðum saman, margir hverjir alla vega. Það er misjafnt hvaða möguleika listamenn hafa til að afla sér tekna með listsköpun við þær aðstæður sem nú ríkja í íslensku samfélagi og samkvæmt könnun sem Bandalag háskólamanna stóð fyrir innan aðildarfélaga BHM í lista- og menningargreinum hefur orðið mikil aukning á atvinnuleysi innan þeirra raða. Þessar upplýsingar liggja fyrir og í ljósi þessa er brýnt að fjölga listamönnum á starfslaunum þannig að fleiri listamönnum verði gefinn kostur á að starfa að listsköpun sinni næstu árin. Lagt er til að lögin öðlist gildi 1. janúar 2021 en hv. allsherjar- og menntamálanefnd hefur fjallað ítarlega um framlagt frumvarp hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra.

Nefndarálit meiri hluta nefndarinnar liggur nú fyrir og í því er langur listi yfir gesti sem komu fyrir nefndina. Ég ætla ekki að gera þeim það sem með fylgjast að lesa þetta allt saman upp en gögnin liggja fyrir á vef þingsins ef menn vilja kynna sér þau nánar.

Nefndinni bárust þó nokkrar umsagnir frá ýmsum, bæði einstaklingum og félagsskap og samböndum þeirra sem starfa í þessum geira. Í nefndarálitinu segir, með leyfi forseta:

„Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2021 (1. mál, þskj. 1) er gert ráð fyrir að veita 225 millj. kr. tímabundið í launasjóði listamanna í ljósi áhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru á sjálfstætt starfandi listamenn. Með frumvarpinu er lagt til að við lög um listamannalaun, nr. 57/2009, bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða þess efnis að samanlögðum starfslaunum árið 2021 verði fjölgað tímabundið úr 1.600 mánaðarlaunum í 2.150. Þá er lagt til að hlutfallsskipting starfslauna árið 2021 taki mið af þeim listgreinum sem harðast hafa orðið úti í heimsfaraldrinum á árinu 2020. Þannig verði hlutfallslega mest hækkun á starfslaunum og styrkjum til sviðslistafólks og tónlistarflytjenda, en aðrar listgreinar hækki einnig.

Við meðferð málsins komu fram sjónarmið um að fullt tilefni væri til að fjölga varanlega starfslaunum og styrkjum og að gerð verði áætlun um jafna aukningu á árunum 2021–2025 og að mánaðarlaunin verði að endingu komin í 2.700. Þá voru gerðar athugasemdir þess efnis að við hlutfallsskiptingu starfslauna fyrir árið 2021 hafi ekki verið litið til allra listgreina, eins og t.d. stöðu hönnuða og arkitekta.

Að mati meiri hlutans er bæði brýnt og tímabært að fram fari endurskoðun á lögum um listamannalaun, sérstaklega með hliðsjón af flóknu og fjölbreyttu launaumhverfi listamanna, þeirri fjölgun á umsóknum um starfslaun sem átt hefur sér stað síðastliðin ár sem og hlutfallsskiptingu milli listgreina. Fyrir liggur að mennta- og menningarmálaráðuneytið á í samræðum um slíka endurskoðun og telur meiri hlutinn mikilvægt að sjónarmið sem komu fram við meðferð málsins verði jafnframt tekin til nánari skoðunar á þeim vettvangi. Í ljósi þess telur meiri hlutinn að svo stöddu æskilegt að brugðist verði við aðstæðum listamanna og því tjóni sem listgreinar hafa orðið fyrir vegna heimsfaraldursins með tímabundinni fjölgun starfslauna fyrir árið 2021 en hvetur ráðuneytið til þess að ljúka nauðsynlegri endurskoðun laganna sem fyrst. Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.“

Undir þetta nefndarálit rita sú sem hér stendur, hv. formaður nefndarinnar, Páll Magnússon, og hv. þm. Guðmundur Andri Thorsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Birgir Ármannsson, Steinunn Þóra Árnadóttir, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.