151. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2020.

listamannalaun.

310. mál
[21:28]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Forseti. Ég ætla að koma hér stutt upp og fagna þessu máli og fagna því að það sé verið að veita þessum mikilvæga málaflokki athygli á tímum heimsfaraldurs. Það hefur ekki alltaf verið sjálfgefið að listir og listsköpun fái yfir höfuð athygli á erfiðum tímum, jafnvel ekki einu sinni á góðum tímum, þannig að það er ánægjulegt og til eftirbreytni. Eins fagna ég því að heyra að í gangi sé heildarendurskoðun á þessum málaflokki.

List er lífsnauðsynleg heilbrigðu lýðræði. Þetta hefur verið sérlega erfiður tími fyrir listamenn og listalífið og sérstaklega tónlistarmenn sem hafa hátt í ár núna ekki getað sinnt sínu starfi eins og þeir vilja og þurfa. List er rannsóknarvinna. Hún er líka frumkvöðlastarf og nýsköpun. Í raun má segja að listamannalaun sé rangnefni vegna þess að þegar sótt er um listamannalaun þarf að uppfylla ákveðin skilyrði. Það er oftast sótt um styrk til ákveðinna verkefna, hvert fyrir sig, og fólk er í samkeppni við marga aðra um þessa styrki. Þetta er ekki þannig að menn gangi bara inn af götunni og setji hnefann í borðið og heimti að fá listamannalaun, eins og maður hefur stundum hlerað í umræðunni gagnvart þessu. En það er ánægjulegt eins og áður segir að þetta sé í gangi. Ég myndi vilja endurnefna listamannalaun sem, eins og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson samflokksmaður minn hefur lagt til, nýsköpunarstyrki. Listamannalaun eru nýsköpunarstyrkir.

Að lokum langar mig til að benda á það að sannleikurinn er fenginn með samsuðu margra ólíkra hugmynda, sjónarmiða og tilrauna og þannig rannsökum við tilveruna og samfélagið okkar og þá tíma sem við lifum hverju sinni. Þarna leikur listalífið höfuðhlutverk og er oft á undan í breytingum í hugsunarhætti, bregst við í kjölfar erfiðra tíma, eftir stríð og er leiðandi afl í samfélögum manna. Harold Pinter heitinn, sem fékk Nóbelsverðlaun fyrir leikritaskrif, sagði í nóbelsverðlaunaræðu sinni:

„Það eru engin skörp skil á milli þess sem er raunverulegt og þess sem er það ekki. Heldur ekki á milli þess sem er satt og þess sem er ósatt. Ég trúi á að þessi orð standi og eigi enn þá við hvað varðar rannsóknir á raunveruleikanum í gegnum list. Sem leikskáld stend ég við þessi orð en sem ríkisborgari get ég það ekki. Sem ríkisborgari er ég tilneyddur til að spyrja: Hvað er satt? Hvað er ósatt?“

Ég fagna þessu máli enn og aftur og ég vil hvetja hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra áfram til góðra verka á þessum nótum.