151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

störf þingsins.

[13:50]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Á þessum tíma árs er erfitt fyrir margar fjölskyldur með lágar tekjur að ná endum saman og margir eiga um sárt að binda vegna fjölskylduaðstæðna, veikinda, atvinnuleysis og annarra erfiðleika sem fólk glímir við og það verður enn átakanlegra í jólamánuðinum þegar allir vilja reyna að gera sér dagamun og gleðjast og ég tala nú ekki um þetta Covid-ástand sem ríkir. Það er sem betur fer fjöldinn allur sem leggur góðum málefnum lið við þessar aðstæður, félagasamtök, fyrirtæki sem einstaklingar, því það er hluti af mennskunni að gera það. Hvort sem það er gert í hljóði eða haldið á lofti er það samfélagsleg ábyrgð okkar allra en það undanskilur ekki þátt ríkis og sveitarfélaga að tryggja þeim verst settu öryggi í framfærslu hverju sinni. Það verkefni verður alltaf til staðar og þar bera stjórnvöld hverju sinni mikla ábyrgð.

Gripið hefur verið til fjölda aðgerða til stuðnings tekjulágum undanfarna mánuði, t.d. sem snúa að húsnæðismálum, lækkun skatta, gjaldskrárlækkunum í heilbrigðiskerfinu og auknum lífeyri til þeirra verst settu. Nýverið var samþykkt að atvinnuleysis- og örorkubætur verði hækkaðar á næsta ári. Ákveðið hefur verið að hækka atvinnuleysisbætur upp í ríflega 307.000 kr. á næsta ári, eða um 6%, auk þess sem atvinnuleitendur fá 87.000 kr. í desemberuppbót og hlutabætur verða framlengdar. Auk þess hækka greiðslur vegna framfærslu barna atvinnuleitenda og tekjutenging atvinnuleysisbóta verður lengd. Stutt verður enn frekar við tómstundaiðkun barna á tekjulægri heimilum og skerðingarmörk barnabóta hækka. Þá hækka barnabætur hjá tekjulægri foreldrum, örorku- og endurhæfingargreiðslur hækka um 20.000 kr. hjá þeim tekjulægstu og greidd verður skattfrjáls eingreiðsla, 50.000 kr., í desember og desemberuppbótin hækkar í 62.000 kr. hjá þeim sem búa einir.

Við erum aldrei komin á endastöð varðandi þá sem búa við kröppustu kjörin. Velferðarsamfélagið verður sífellt að vera á vaktinni gagnvart veikustu hópunum hverju sinni og það er alltaf hægt að gera betur. — Gleðilega jólahátíð.