151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

bætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum.

211. mál
[14:53]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (U) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég styð að sjálfsögðu þetta mál og tel það vera af hinu góða. Það er gott að við séum að afgreiða þetta mál í dag en ég tek undir með þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað. Ég hefði viljað sjá meiri vernd og viðurkenningu á vondri upplifun og illri meðferð fullorðins fólks sem hefur stigið fram og sagt frá því að það varð fyrir illri meðferð sem börn á einkaheimilum sem þeim var komið fyrir á af hálfu opinberra aðila. Ef það hefði verið tryggt enn betur með þessu frumvarpi hér og nú hefðum við þar með staðið vörð um öll þau börn sem voru vistuð af hálfu opinberra aðila. En ég vona, þrátt fyrir að fyrirsögn frumvarpsins kveði á um lokauppgjör, að við getum samt sem áður farið í þann leiðangur að gera upp þá fortíð sömuleiðis. Það er kannski líka í takt við þau mál sem eru að koma frá hæstv. félags- og barnamálaráðherra þegar við erum að endurskoða öll þau lög (Forseti hringir.) er varða börn og málefni þeirra.

Ég styð þetta mál en ég hefði gjarnan viljað sjá enn frekari vörn um það.