151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

utanríkisþjónusta Íslands.

19. mál
[15:39]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Hér er mál sem lýsir sorglegu metnaðarleysi af hálfu ráðherra sem er búinn að vera í utanríkisráðuneytinu núna í fjögur ár. Það var enginn sem mælti með þessu frumvarpi en það var hins vegar ákall um heildarendurskoðun á lögum frá árinu 1971. Það hefðum við í Viðreisn vissulega stutt. Það er ákall um það að við stöndum að utanríkisþjónustu sem getur tekið á móti áskorunum, alþjóðlegum áskorunum sem Ísland stendur frammi fyrir og þarf að standa undir og taka þátt í. Það hefði verið meiri reisn í því að fara í slíka heildarendurskoðun. Þetta mál sem um ræðir er að mínu mati breyting sem í rauninni skiptir litlu máli fyrir utanríkisþjónustuna. Ég hefði miklu frekar viljað sjá hér breytingu sem hefði stutt við hana, gert utanríkisþjónustu okkar miklu metnaðarfyllri og sterkari til þess, eins og ég segi, að takast á við áskoranir framtíðarinnar. Þetta frumvarp kemur hins vegar ekki á óvart. (Forseti hringir.) Það lýsir algjöru metnaðarleysi í þágu utanríkisþjónustu Íslands.