151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar á tímum kórónuveirufaraldurs .

362. mál
[17:00]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir breytingartillögu minni við þetta mikilvæga og þarfa mál. En áður en ég geri það vil ég taka fram að ég styð í einu og öllu þær breytingar sem gerðar voru í nefndinni en skrifaði þó undir nefndarálitið með fyrirvara vegna þeirrar breytingar sem ég tel nauðsynlegt að leggja til.

Í fyrsta lagi legg ég til að á eftir orðinu launagreiðslum í 1. málslið 6. gr. frumvarpsins komi: auk launatengdra gjalda. Í annan stað legg ég til að í a-lið 5. töluliðar breytingartillögu á þskj. 598 komi 90% í stað 70%. Hvers vegna? Ef ég fer aðeins yfir breytingartillögurnar fyrst þá legg ég þetta til vegna þess einfaldlega að við höfum í öðrum úrræðum sem við höfum samþykkt á Alþingi að ráðast í, t.d. styrki á uppsagnarfresti, tekið þá ákvörðun að styðja fyrirtækin um þann kostnað sem þau þurfa sannarlega að bera, auðvitað að einhverju hámarki en í því úrræði t.d. eru launatengdu gjöldin, orlofsgreiðslur og lífeyrissjóðsgreiðslur og þess háttar með í styrknum. Hvers vegna? Jú, vegna þess að við erum að styrkja fyrirtækið um þann kostnað sem það þarf að bera vegna starfsmannsins.

Hér áðan var rætt um að blanda þessum launatengdum gjöldum saman við umræðuna um hvort styðja ætti við verktaka eða ekki. Þetta eru bara tvö alls óskyld mál í rauninni og við verðum að skilja alveg um hvað við erum að tala. Hvort sem greiðandinn, þ.e. vinnuveitandinn, greiðir laun launamanni eða verktaka þá er bara verið að greiða ákveðinn reikning, annars vegar til verktakans og hins vegar laun og launatengd gjöld vegna starfsmannsins. Þess vegna skiptir í rauninni engu máli hvort um er að ræða verktaka eða launamann, við ætlum að styðja við bakið á þessum fyrirtækjum um þennan skamma tíma. Við ætlum að styðja við bakið á íþróttafélögunum vegna þess kostnaðar sem þau þurfa að bera vegna starfsmanna sem geta ekki vegna kórónuveirufaraldursins sinnt sinni vinnu. Íþróttafélögin þurftu algerlega að loka, stöðva alla starfsemi um ákveðinn tíma og þetta frumvarp er til þess að reyna að koma til móts við þann hóp sem sinnir með beinum hætti þjálfun eða iðkun íþrótta. Hér er ekki um að ræða skrifstofufólk eða annað starfsfólk.

Þess vegna legg ég til þá breytingu að við grípum þessi félög, eins og við höfum tekið ákvörðun um hér í þinginu að grípa önnur félög. Við höfum tekið ákvörðun um að hafa ekki launatengdu gjöldin undanskilin af því það er sannarlega kostnaður sem íþróttafélögin þurfa að bera. Í rauninni finnst mér ekki vera rökstutt hvers vegna meiri hlutinn tekur ákvörðun um að hafa þetta með öðrum hætti en önnur úrræði. Ég átta mig ekki á því af því þetta er kostnaðurinn og ég fékk það á tilfinninguna í nefndinni að verið væri að bera saman tvo ólíka hluti, að það væri í raun verið að láta eins og launatengdu gjöldin hefðu eitthvað með verktakann að gera. Það er ekki svo. Það eru launatengd gjöld á báðum stöðum. Á öðrum staðnum þarf vinnuveitandinn að standa skil á launatengdum gjöldum og á hinum staðnum þarf verktakinn að standa skil á launatengdum gjöldum sjálfur. Hvort heldur sem er þá finnst mér ótækt að við látum íþróttafélög standa í allt öðrum sporum en önnur fyrirtæki á Íslandi.

Það dylst engum hvers konar forvarnir og lýðheilsa býr að baki íþróttastarfi á Íslandi. Við fengum fyrir nefndina fulltrúa Knattspyrnusambands Íslands, Körfuknattleikssambands Íslands og Handknattleikssamband Íslands og fengum að heyra hjá þeim hvernig staðan er. Það hefur orðið algjört hrun í tekjum hjá íþróttafélögum um allt land. Það hefur orðið algjört hrun líka í styrkveitingum af því að auðvitað halda félög og fyrirtæki um allt land frekar að sér höndum á meðan við látum þennan storm ganga yfir.

Það er líka erfitt fyrir félögin að sækja styrki en á sama tíma eru íþróttafélögin skuldbundin, bæði sínu launafólki, sem er mögulega 20% starfsfólksins, þ.e. iðkendum og þjálfurum, en líka þeim verktökum sem eru með tímabundna verktakasamninga. Nú skal það tekið fram og það var staðfest að verktakasamningar við íþróttafélögin eru ekki svokölluð gerviverktaka, engan veginn. Þetta eru einfaldlega tímabundnir samningar, mögulega eitt leiktímabil, og þetta eru hlutastörf. Þetta er ungt fólk sem er hugsanlega leikmenn og taka að sér þjálfun yngri flokks og fá fyrir það kannski 10.000 kall á mánuði o.s.frv. Þeir gestir sem komu á fund nefndarinnar ræddu það að fjöldinn sem starfaði við þetta hjá íþróttafélögum um allt land væri hvorki meira né minna en 1.000 manns. Það eru um 100.000 iðkendur og sjálfboðaliðar en þeir sem koma að starfinu og þjálfa og spila og þess háttar eru um 1.000 manns. Þetta er auðvitað breiðfylking fólks sem þarna er undir og það er ekki hægt að horfa fram hjá lýðheilsusjónarmiðum þegar við styðjum við bakið á íþróttafélögum. Þetta er mjög mikilvæg starfsemi sem þarna fer fram. Hún er mikilvæg fyrir börn í mjög ólíkum aðstæðum. Þetta krefst iðulega ekki mikilla fjárútláta þannig séð og stéttaskiptingin er ekki mjög áhrifamikil í þessari starfsemi heldur hefur verið reynt eins og frekast er unnt, af sveitarfélögum t.d., að veita börnum efnaminni fjölskyldna styrk til þess að taka þátt í slíku starfi.

Mig langar aðeins að koma inn á það sem hefur verið rætt um hlutabótaleiðina af því að það kom til umræðu í nefndinni hvort taka ætti fleiri félagasamtök inn í frumvarpið. Við vinnslu nefndarinnar kom í ljós að þau félagasamtök eru að mörgu leyti ólíkt uppbyggð einmitt vegna sérstöðu íþróttafélaganna, annars vegar hversu margir sjálfboðaliðar eru þar og hversu margir eru í eingöngu litlu hlutastarfi við iðkun eða þjálfun eða aðstoðarþjálfarar. Þetta vinnusamband verður á einhvern hátt ólíkt því sem þekkist annars staðar. Þess vegna var tekin sú ákvörðun að fara frekar þá leið að breyta ákvæðum laga um hlutabótaleiðina til þess að koma þeim félagasamtökum frekar inn í það úrræði, að hleypa þeim aftur inn þar en því miður var þeirri leið breytt síðastliðið sumar þannig að félagasamtök sem eru óhagnaðardrifin og eru almannaheillasamtök voru tekin út úr þeirri leið á óskiljanlegan hátt.

Nú er verið að bæta þeim aftur inn í það mál og þannig grípum við þau félög sem sinna annars konar starfsemi en íþróttastarfsemi. Aftur segi ég að það er vegna þess hvers eðlis þetta vinnusamband er milli starfsfólks sem kemur beint að iðkun íþrótta eða er íþróttafólk sjálft á einhvers konar þóknun og svo íþróttafélaganna.

Ég hef þá kynnt breytingartillöguna sem ég legg til og vona að meiri hluti þings sé tilbúinn til þess að skoða hana með opnum augum þrátt fyrir að hún komi nú bara frá aumum stjórnarandstöðuþingmanni. Ég held að það hafi gætt ákveðins misskilnings í umræðunni um af hverju launatengdu gjöldin ættu að vera undanskilin í þessu úrræði en ekki öðrum úrræðum eins og það gildi einhverjar aðrar reglur um íþróttafélög en fyrirtæki sem hafa fengið stuðning vegna kórónuveirufaraldursins.

Að öðru leyti styð ég að sjálfsögðu þetta mál heils hugar og er mjög ánægð með að nefndin hafi fallist á að bæta verktökum inn í málið. Það var mjög mikið um það rætt hér við 1. umr. Sú sem hér stóð benti á að verktakarnir væru þetta stór hluti íþróttaiðkenda og þjálfara þannig að það skipti mjög miklu máli að ekki yrði farið í einhverja loftfimleika hvað þetta varðar og þeir skildir eftir í þeim tilgangi að reyna að breyta þeim kúltúr sem þar tíðkast. En það er, svo ég segi það aftur, ekki vegna gerviverktöku heldur vegna þessara tímabundnu stuttu hlutastarfasamninga sem þekkjast svo vel í þessu umhverfi.