151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

nauðungarsala.

270. mál
[18:52]
Horfa

Flm. (Jón Þór Ólafsson) (P):

Forseti. Þetta er endurflutningur á máli sem við fluttum í vor um að fresta nauðungarsölum. Við stöndum frammi fyrir Covid-kreppunni, hún er byrjuð. Í nóvembermánuði kom fram á vef Vinnumálastofnunar að heildaratvinnuleysi væri komið upp í 12%, sem er vel yfir 20.000 manns sem þurfa að reka heimili sín og standa frammi fyrir því að sá rekstur á ekki endilega eftir að ganga upp. Fjármálaráðherra nefndi í vor að við stæðum frammi fyrir verstu kreppu í heila öld og þess vegna fannst okkur tímabært að byrja strax að setja á borðið það sem var gert í síðustu kreppu. Það tók að vísu heilt ár frá hruni að leggja fram fyrsta frumvarpið um frestun á nauðungarsölum en við erum orðin ansi vön í þessu. Þetta er eitthvað sem Alþingi þekkir vel. Þetta er eitthvað sem samfélagið þekkir vel.

Það sem við viljum gera með því að leggja fram frumvarp um frestun nauðungarsalna er að minna á að það er kominn tími til þess að slík skilaboð, slíkt fyrsta skref, séu send út í samfélagið að fólk þurfi ekki hafa áhyggjur af því ef það lendir í fjárhagserfiðleikum vegna Covid að það muni tapa heimilum sínum. Þetta eru skilaboð sem gefa fólki öryggi. Það hefur verið komið með hvern björgunarpakkann á fætur öðrum fyrir atvinnulífið. Það hafa verið einhverjir björgunarpakkar fyrir einstaklinga en það hafa ekki verið heildstæðir björgunarpakka fyrir heimilin, þannig að fólk geti haldið heimilum sínum.

Það er áhugavert að fara yfir tímalínuna og skoða hvenær þetta hefur gerst áður. 21. október 2009, ári eftir guð blessi Ísland ræðuna, kannski formlega upphaf hrunsins á Íslandi eða þegar fólk vaknaði almennt til meðvitundar um hversu slæm staðan var, lagði hæstv. dómsmálaráðherra fram frumvarp um frestun nauðungarsölu, sem þá var Ragna Árnadóttir. Það er áhugavert því að hún er núna skrifstofustjóri þingsins. Eftir áramótin, 24. febrúar 2010, lagði hún aftur fram slíkt frumvarp. 2012 var það Ögmundur Jónasson, þáverandi dómsmála- og mannréttindaráðherra. Svo lagði meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar sameiginlega fram frumvarp 2013 og sama ár, rétt fyrir árslok eða 10. desember, lagði Hanna Birna Kristjánsdóttir, hæstv. innanríkisráðherra, fram frumvarp og síðan aftur 2014. Þetta er því eitthvað sem við þekkjum vel, þetta stenst stjórnarskrá, lög, væntingar, og við þekkjum að þetta virkar. Þetta hefur þýtt það að fjölmörg heimili, fjölmargir Íslendingar, fjölmargar fjölskyldur töpuðu ekki dýrmætustu eign sinni, öryggi sínu, heimili sínu.

Það er kominn tími til að setja þetta á borðið og viljum við beina því til stjórnarflokkanna og til allsherjar- og menntamálanefndar, þar sem þetta mál hefur alltaf verið unnið, að vinna þetta hratt og vel. Það geta komið fram alls konar sjónarmið sem geta breytt málinu eitthvað en þó vil ég aftur ítreka að þetta er samhljóða því máli sem Hanna Birna Kristjánsdóttir, hæstv. innanríkisráðherra Sjálfstæðisflokksins, lagði fram á sínum tíma, bæði í lok árs 2013 og í september 2014.

Frumvarpið er í rauninni mjög einfalt. Í greinargerðinni kemur fram, með leyfi forseta:

„Séu gerðarþolar fleiri en einn verður beiðni um frestun að koma frá þeim sameiginlega. Áskilið er að um sé að ræða húsnæði sem er ætlað til búsetu samkvæmt ákvörðun skipulags- og byggingaryfirvalda, gerðarþoli eigi þar lögheimili og haldi þar heimili.“

Fókusinn er ekki á þá sem eru kannski í einhverju braski heldur á heimili fólks, heimili fjölskyldna landsins, og að þessi frestur verði gefinn.

Mig langar að fara í umsögn Hagsmunasamtaka heimilanna. Það voru Hagsmunasamtök heimilanna sem stóðu vaktina í síðustu kreppu, pössuðu upp á það og þrýstu á stjórnvöld að fresta nauðungarsölum m.a. og á önnur úrræði þannig að fjölskyldur töpuðu ekki heimilum sínum. Í umsögn Hagsmunasamtaka heimilanna, bæði frá því í vor þegar við lögðum málið fram síðast og svo aftur núna við þetta mál sem við erum að ræða, segir, með leyfi forseta:

„Með frumvarpi þessu er lagt til að gerðarþoli geti óskað eftir því að nauðungarsölu íbúðarhúsnæðis þar sem hann heldur heimili og hefur lögheimili verði frestað fram yfir 1. desember 2021. Sú tillaga er í fullu samræmi við þær aðgerðir sem Hagsmunasamtök heimilanna hafa lagt áherslu á að skuli grípa til í því skyni að veita heimilunum skjól fyrir þeim neikvæðu áhrifum sem heimsfaraldur kórónuveiru hefur og mun hafa á efnahagslífið og fjárhagslega stöðu heimilanna á næstunni.

Alls voru 20.252 einstaklingar atvinnulausir í almenna bótakerfinu í lok októbermánaðar og 4.759 í minnkuðu starfshlutfalli, eða samtals 25.011 manns, samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun. Þá hafa þúsundir leitað eftir greiðslufrestunum húsnæðislána hjá bönkunum. Verðbólga hefur aukist frá því að frumvarp þetta var síðast lagt fram og blikur eru á lofti um hagsmuni heimilanna.

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur lýst því yfir að búast megi við verstu kreppu í hundrað ár, jafnvel verri en þeirri sem gjaldþrot bankanna árið 2008 hafði í för með sér. Enginn treystir sér til að spá um hversu langvarandi þessi kreppa muni verða en ljóst er að ekki munu öll heimili fara vel út úr henni. Frestun greiðslna mun ekki leysa vanda allra þó hún sé mikilvæg sem fyrstu viðbrögð, en við mörgum mun ekkert blasa við nema óvissan ein þegar frestuninni lýkur.“

Þarna vil ég aðeins koma inn í og benda á að það er hægt að lengja frestinn og gera það tímanlega. Þetta er tillaga um að gera hlutina tímanlega til þess að fólk hafi ekki óþarfa áhyggjur ofan á atvinnumissi, ofan á minnkað starfshlutfall, ofan á það að hafa tapað vinnunni eða lífsviðurværinu, um að það geti líkað tapað heimilinu.

Það er hægt að fara strax af stað með málið í vinnslu í allsherjar- og menntamálanefnd, vinna það og ná samstöðu um hver sé rétta tímasetningin og senda þau skilaboð út í samfélagið. Ef þarf að lengja frestinn eftir því sem teygist úr kreppunni og þörfin er áfram til staðar þá er hægt, eins og síðast, að gera það tímanlega. Það hefur verið gert sex sinnum frá síðasta hruni, fyrst einu ári eftir hrunið og síðast sex árum síðar.

Nú fer ég fer aftur í umsögn Hagsmunasamtaka heimilanna, síðustu efnisgreinina, með leyfi forseta:

„Frumvarp þetta er gríðarlega mikilvægur liður í því að veita heimilunum skjól við þær fordæmalausu efnahagslegu aðstæður sem eru komnar upp. Hagsmunasamtök heimilanna skynja miklar áhyggjur og ótta meðal almennings um afdrif heimilanna á komandi misserum. Frestun á nauðungarsölum myndi senda sterk skilaboð og hughreysta þá sem hafa þessar réttmætu áhyggjur. Samtökin mælast því eindregið til þess að frumvarp þetta verði samþykkt sem lög nú þegar.“

Undir umsögnina rita fyrir hönd Hagsmunasamtaka heimilanna Ásthildur Lóa Þórsdóttir og Guðmundur Ásgeirsson.

Ég legg til, forseti, að þetta mál gangi til allsherjar- og menntamálanefndar og fái þar venjulega þinglega meðferð. Umsagnarfresturinn er þrjár vikur. Það eru enn þá eftir tveir fundir í allsherjar- og menntamálanefnd, geri ég ráð fyrir, og hægt að senda málið strax í umsagnarferli þannig að í byrjun árs verði umsagnir komnar og hægt að hefja gestakomur. Þá getum við strax sent þau skýru skilaboð að okkur sé umhugað um það, þegar við stöndum frammi fyrir þessari kreppu sem fjármálaráðherra hefur sagt að gæti verið verri en kreppan í bankahruninu, að stíga strax inn og koma heimilunum í skjól. Sendum þau skilaboð að það sé það sem við ætlum að gera, ekki bara að koma atvinnulífinu í skjól, sem þurfti að gera, heldur líka að koma heimilunum í það skjól sem þau fengu eftir hrunið. En vegna þess að við þekkjum söguna verðum við núna í fyrra fallinu og sendum þessi skilaboð strax.