151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla.

271. mál
[19:45]
Horfa

Flm. (Bryndís Haraldsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér í annað skipti fyrir frumvarpi sem ég legg fram um breytingu á lögum um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu. Þetta þingmál gengur einfaldlega út á það að gefa eða auka frelsi þegar kemur að líkamsleifum. Í dag erum við með frekar gömul lög um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu. Við erum auðvitað með mjög ákveðna ramma í kringum kirkjugarðana okkar og hvernig þá skal meðhöndla og svo er hægt að sækja um að láta brenna líkamsleifar sínar. Þá er mjög strangur rammi um það hvað skal gera við öskuna. Henni skal sem sagt koma fyrir í þar til gerðu keri og hana skal jarðsetja í kirkjugörðum. Þó er hægt að sækja um undanþágu frá því ákvæði, áður var það til ráðuneytisins en nú er það til sýslumanns, um að dreifa öskunni en þó má eingöngu gera það yfir öræfum eða sjó. Það er í rauninni sá þáttur í lögunum sem ég vil breyta og tel tímabært að breytist. Ég hef fengið með mér í þetta mál flutningsmenn úr flestum flokkum hér á þingi. Með mér flytja þetta mál hv. þingmenn Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Willum Þór Þórsson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Guðjón S. Brjánsson, Hanna Katrín Friðriksson, Inga Sæland, Björn Leví Gunnarsson og Andrés Ingi Jónsson. Ég ætla að segja það, virðulegur forseti, að eftir að ég lagði þetta mál fram á sínum tíma í fyrra og svo aftur núna hef ég fengið fjölda símtala og skeyta og póstsendinga um mikilvægi þess að breyta þessum lögum og heyrt ýmiss konar sögur og sjónarmið sem ég held að sé mjög mikilvægt að tekin verði fyrir hér á vettvangi þingsins.

Ég er þeirrar skoðunar, og flutningsmenn, að ástæða sé til að hafa um þetta frelsi og einstaklingar eigi sjálfir að ráða sínum næturstað. Í bíómyndum sér maður oft að jarðneskum leifum fólks er dreift fallega yfir fallegt land eða vatn eða í einhverjum skógi og fólk er jafnvel með einhverja minningarreiti og annað því tengt. En það er ekki heimilt í dag og þegar fólk sækir um þessa sérstöku undanþágu þá skal dreifa öskunni á öræfum eða yfir sjó og það má bara vera á einum stað. Það er ekki í boði að dreifa ösku víðar og það má alls ekki merkja þessa staði.

Þegar ég fór að grafast fyrir um þetta var mér bent á það að víða á Norðurlöndunum væri þetta mun frjálsara en hér þó að þar séu vissulega reglur í kringum þetta. Þá var sérstaklega tilgreint að þar væri komin ákveðin hefð fyrir skógarlundum þar sem mætti dreifa ösku og fólk mætti setja minningarskildi á tré. Ég birti í greinargerð með frumvarpinu upplýsingar sem upplýsingaþjónusta þingsins var svo góð að koma með, þar segir t.d. að í Danmörku megi dreifa ösku yfir opið haf en biskup geti heimilað að farið sé með öskuna á annan hátt. Í Finnlandi skal fara með ösku látins manns af virðingu og þannig að minning hans sé heiðruð, dreifa má ösku t.d. yfir vatn eða land, forstöðumaður bálstofu má því aðeins láta öskuna af hendi til að hún sé greftruð eða komið fyrir á varanlegum stað. Þá þarf innan árs að grafa öskuna eða koma henni fyrir á varanlegum stað. Þó þarf að afla leyfis hjá eiganda eða umráðamanni lands þar sem öskunni er komið fyrir. Í Noregi veitir sýslumaður leyfi fyrir dreifingu ösku og í Svíþjóð má dreifa ösku annars staðar en í kirkjugarði að fengnu leyfi hjá lénsstjórn. Slíkt leyfi er aðeins veitt ef sá staður þar sem öskunni skal dreift er talinn hentugur og augsýnilegt að askan verði meðhöndluð af virðingu. Ég tek fram að auðvitað er það mjög mikið atriði að farið sé með þetta af virðingu.

Ég nefndi hér áðan það sem maður sér í bíómyndum en hér er ég að tala um Norðurlöndin sem við höfum oft horft til í lagasetningu sem þessari og mér finnst ástæða til að horfa til þess. En víða er þetta auðvitað alveg frjálst. Enginn fær að hafa einhverja sérstaka skoðun á því. Aðstandendur fá einfaldlega duftkerið afhent og geta ráðið því hvort það er uppi á arinhillu, öskunni dreift, hvort öskunni er dreift innan einhvers tíma eða dreift á marga staði eða settur upp einhver minningarskjöldur eða annað. Þar af leiðandi, þrátt fyrir að við séum með stífan lagaramma um þetta og aðstandendur fái ekki afhent duftker nema hafa sótt um það og skrifað undir hvað þeir ætli að gera við það og annað, þá tel ég, og reyndar eru komnar sannanir fyrir því, að hér sé ösku látinna manna dreift án þess að það sé nokkurs staðar skráð eða neins staðar sótt um það. Til að mynda hafa birst fréttamyndir af því þegar einstaklingur var að dreifa ösku látins ástvinar yfir Seljalandsá og ég ímynda mér að fólki sem býr við meira frelsi í þeim efnum detti ekki einu sinni í hug að það þurfi sérstaklega að sækja um leyfi fyrir slíku.

En ég tók líka eftir því, og maður fer að hugsa á sérkennilegan hátt þegar maður fer að velta þessu máli fyrir sér, að þegar ég var að tékka mig inn í flug fyrir Covid, þegar fólk var enn þá að ferðast, þá var skilti á borðinu við innritunina þar sem var tekið fram hvað megi taka með sér í handfarangur. Það eru auðvitað miklar reglur um krem og snyrtivörur og annað en varðandi duft þá má það vera mjólkurduft fyrir ungbörn og lyf, séu þau nauðsynleg, og þá var líka sérstaklega talað um ösku. Það er sem sagt í lagi að ferðast með ösku í handfarangri. Það er greinilega það algengt að það er sérstaklega tilgreint við innritun. Ástvinur þurfti að fara utan að sækja líkamsleifar látins ástvinar og ég hafði miklar áhyggjur af því að viðkomandi gæti ekki komist með þetta óhindrað til landsins, fara þyrfti margar ólíkar flugferðir á milli margra landa en það var víst minnsta mál að fara með öskuna í bakpokanum um fjölda flugvalla. Það segir mér að kannski sé kominn tími til að breyta þessu og eðlilegt að einstaklingurinn sjálfur geti látið liggja eftir sig bón um það hvernig fara skuli með líkamsleifarnar, þ.e. óskað eftir því að vera brenndur og óskað eftir því að öskunni sé dreift með ákveðnum hætti og svo ættum við auðvitað að treysta aðstandendum til að virða þá ósk.

Ég ætlaði líka aðeins að fara yfir það að bálförum hefur fjölgað töluvert. Ég hygg að það hafi verið hv. þm. Andrés Ingi Jónsson sem lagði fram fyrirspurn til dómsmálaráðherra á 149. þingi um hlutfall bálfara og hefðbundinna útfara, þá voru bálfarir orðnar 35% allra útfara. Þá voru vangaveltur um hvað við þyrftum mikið rými undir kirkjugarða til lengri tíma. Ljóst er á þeim svörum að í slíkum áætlunum gerum við ráð fyrir því að bálförum fjölgi enn frekar. Það hefur verið þróunin og allar líkur á að það verði áframhaldandi þróun. Ég ætla alls ekki með því að tala niður kirkjugarða, mér finnst kirkjugarðar afspyrnufallegir. Sjálf fer ég einmitt sérstaklega á hátíðum og minnist látinna ættingja með því að kveikja á kertum og ég held að kirkjugarðar þjóni ofboðslega miklu samfélagslegu og menningarlegu hlutverki. En að því sögðu vilja ekki allir hvíla þar til allrar eilífðar og vilja að öðruvísi sé farið með líkamsleifar þeirra og þess vegna finnst mér ástæða til að við opnum á það. En ég ætla þó að nefna líka í þessu að kirkjugarðar taka auðvitað upp landrými og við þekkjum það nú úr næsta nágrenni að hér voru mikil átök um byggingar vegna þess einmitt að þar var kirkjugarður á sínum tíma.

Við höfum þó þróað það þannig að með fjölgun bálfara getur aðstandandi ráðið því, hægt er að jarðsetja kerið í leiði látins ættingja eða í venjulegu leiði í kirkjugörðum. En til eru sérstakir garðar fyrir þetta, afspyrnufallegir, og vel hefur tekist til með það. En mér finnst það þó engin ástæða fyrir því að gefa ekki frelsi til að dreifa öskunni sé þess óskað. Ég hef líka fengið spurnir af því að fólk sé hér með hugmyndir um að byggja upp ákveðna minningargarða, Tré lífsins er til að mynda eitt fyrirtæki sem ég hef fengið sendar upplýsingar um, það vill byggja upp slíka minningargarða og þróa ákveðna þjónustu í kringum það. Eins og ég sagði áðan hefur fjöldi fólks haft samband og lýst miklum áhuga á því að þetta mál nái fram að ganga.

Ég velti fyrir mér hvort ég þurfi nokkuð að segja mikið meira, mér finnst þetta svo borðleggjandi. Ég ætlaði að beina því til allsherjar- og menntamálanefndar að í þessu frumvarpi mínu tek ég í raun bara undir það sem er í dag, að ösku skuli setja í duftker úr forgengilegu efni, og áfram sé heimilt að grafa þau og þá fylgi því þær reglur sem um það eru. Aftur á móti er ég bara að opna á það að virða ósk hins látna og dreifa þá öskunni óski hinn látni þess. Þá má einnig velta fyrir sér, og það er ein af þeim ábendingum sem hafa komið inn í þessa umræðu, því sem ég myndi kalla þéttingu byggðar í kirkjugörðum. Nú finnst mér þétting byggðar eiga við sums staðar og sums staðar alls ekki. En maður gæti vel séð fyrir sér að hægt væri að þétta byggð í kirkjugörðum og koma fyrir fjölskylduminningarreitum. Ég minnist þess sjálf að hafa labbað um slíka, eigum við að segja kirkjugarða, í Hong Kong þar sem fjölskyldur voru í rauninni bara með sína skápa eða sínar blokkir og kerin voru þá annaðhvort jarðsett eða inni í skápum og þarna var ofboðslega fallegt og fólk setti þar skrautmuni og annað sem tengdist látnum ættingja, það kom greinilega þarna saman þegar það vildi minnast ættingjanna og átti fallega stund. Þó að frumvarpið hér geri ráð fyrir því að haldið verði áfram að fara þá leið með duftkerin sem er í dag, þ.e. að þau séu jarðsett, og mig minnir að það sé alla vega 1 m niður, þá má líka alveg velta fyrir sér hvort það eigi að opna enn frekar á það. En stóra málið finnst mér nú að dreifing öskunnar verði gerð frjáls og við hættum að vasast svona mikið í því og hafa miklar skoðanir á því hvar og hvernig fólk megi dreifa öskunni og merkja reitina sérstaklega.