151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla.

271. mál
[19:59]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni framsöguna. Hér er að sjálfsögðu um athyglisvert mál að ræða. Mig langar aðeins að biðja hv. þingmann að koma nánar inn á hvernig hún sér fyrir sér minningarskjöld viðkomandi ef ósk hins látna væri á þann veg að öskunni yrði dreift eins og mælt er fyrir um að leyft verði í frumvarpinu, sem er í raun og veru ekki heimilt í dag. Hvernig færi þá með minningarskjöld, ef hv. þingmaður vildi fara aðeins betur yfir það?

Svo langar mig að fá álit hv. þingmanns á heimagrafreit. Í því felst ákveðið frelsi, það kemur fram frumvarpinu, og ég sé að hv. þingmaður er áhugasöm um að dreifing ösku verði gerð frjáls og það er bara gott og vel. En nú eru heimagrafreitir ekki leyfilegir í dag, það er ekki leyfilegt að stofna nýjan heimagrafreit. Ef við ferðumst um landið og sveitir landsins sjáum við að á sumum bæjum eru heimagrafreitir og að mínum dómi eru þeir til prýði. Þeir eru menningarsöguleg verðmæti, myndi ég segja, þar sem hvíla gjarnan fjölskyldur sem bjuggu á þeim stað.

Er hv. þingmaður þeirrar skoðunar að skoða það nánar að leyfa jafnvel heimagrafreiti á ný, og þá kannski með einhverjum takmörkunum, t.d. með því (Forseti hringir.) að heimila duftker sem greftrunaraðferð? Ef hv. þingmaður gæti komið aðeins inn á þetta.