151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla.

271. mál
[20:02]
Horfa

Flm. (Bryndís Haraldsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi minningarskildi eða annað þess háttar, að merkja staði með einhverjum hætti, þá hef ég séð fallegar myndir af því, t.d. trjálundi þar sem fólk fær að dreifa ösku viðkomandi og fólk fær að setja minningarskjöld á tré í garðinum. Eins hefur maður séð þetta jafnvel við bekki eða annað slíkt. En auðvitað er þetta undir því komið að það sé heimild hjá landeiganda, þannig að eigi menn sjálfir landið myndu þeir ráða því hvað þeir gerðu en annars ekki ef þetta væri á opinberum vettvangi. Auðvitað er ekki hægt að dreifa ösku á landi einhvers annars án samþykkis landeiganda. En ég sé t.d. ekkert því til fyrirstöðu að það megi merkja þessa reiti með einhverjum hætti. En þá ætla ég að segja eitt, sem ég gleymdi að koma inn á, að ástæða er til að gefa það upp þannig að legstaðaskrá — er ég ekki að fara rétt með, er það ekki? — verði í gildi, ég held að það sé mikilvægt að svo verði.

Varðandi heimagrafreiti verð ég að viðurkenna, vegna þess að ég hafði svo mikinn áhuga á þessu máli, að ég skoðaði það ekki sérstaklega. En ég hnaut um það þegar ég fór í gegnum lögin. Þar eru, eins og hv. þingmaður þekkir betur en ég, mjög ákveðin skilyrði. Þeir geta verið á ættaróðölum. Ef ekki hefur verið jarðsett þar í ákveðinn langan tíma getur fólk tekið þá heimagrafreiti af. Ég hygg engu að síður að það að veita aukið frelsi með dreifingu ösku ætti að auðvelda þeim sem vilja hvíla í heimagrafreitum og vera þá með skildi eða annað þar, hvort sem það væri með því að dreifa öskunni sjálfri eða jarðsetja. Ég tek ekki á því í þessu frumvarpi, ég er í rauninni að tala um jarðsetningu keranna enn þá í kirkjugarði. Mér fyndist ekkert því til fyrirstöðu að hv. allsherjar- og menntamálanefnd myndi jafnframt taka það upp í yfirferð sinni yfir þetta frumvarp og endurskoðun á lögunum því að þau eru vissulega komin aðeins til ára sinna. Þótt þetta sé nú eitthvað sem breytist ekki, þ.e. við fæðumst og deyjum, þá má alveg horfa á það stundum með nýjum gleraugum.