151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla.

271. mál
[20:04]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og ég fagna því að hv. þingmaður hafi áhuga á að skoða heimagrafreiti í þessu samhengi, ég held að það sé alveg full ástæða til þess. En mér finnst aðeins óljóst með þessa minningarskildi, hvort það gæti verið kannski svolítið snúið í framkvæmd og hvort það gæti gert að verkum að það komi svolítill losaragangur á þessa skráningu. Eins og í dag er t.d. vefsíða sem heitir gardur.is þar sem hægt er að fletta upp hvar viðkomandi hvílir og þá í hvaða kirkjugarði o.s.frv. Ef þetta fyrirkomulag yrði tekið upp myndi það kannski svolítið flækja þetta mál. Sér hv. þingmaður fyrir sér — hv. þingmaður nefndi trjálundi eða annað slíkt — að það yrði skráð með einhverjum hætti? Er það kannski ekki á skjön við það ef engin skráning yrði, ef hv. þingmaður gæti farið yfir það? Mér finnst þetta vera svolítið óljóst. Nú þekki ég ekki nákvæmlega hvernig þessi framkvæmd er annars staðar á Norðurlöndunum þar sem þetta er heimilt. Þetta yrði náttúrlega nýmæli hér á Íslandi. Gæti hv. þingmaður farið aðeins betur yfir þessa hluti?