151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla.

271. mál
[20:11]
Horfa

Flm. (Bryndís Haraldsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og spurninguna. Já, það var með ráðum gert að ég skildi þetta eftir svolítið opið í 4. mgr 7. gr. þar sem ég segi í rauninni bara: Virða ber ósk hins látna um hvar og hvernig ösku er dreift eða hún varðveitt sé ósk hins látna sú að askan sé ekki jarðsett. Um nánari reglur um dreifingu ösku látins manns fer samkvæmt reglugerð settri með heimild í þessum lögum. Þá er í rauninni fellt brott úr gildandi lögunum að einungis megi dreifa ösku yfir öræfi eða sjó. Í greinargerðinni tala ég skýrt um vilja minn til að gera þetta mjög frjálst. En ég átta mig á því að fólk kann að vilja fara kannski aðeins hægar í þá vegferð og þá held ég einmitt að upplagt sé fyrir hv. allsherjar- og menntamálanefnd að reifa það svolítið.

En ég held að punkturinn um legstaðaskrá skipti máli. Það var ábending sem mér barst einmitt í fyrra. Ég held að engu að síður sé mikilvægt, af því að ég held að í því sé mikill auður og menning, að við getum farið inn á gardur.is og flett upp fólki og hvar legstaður þess er. Í þessu tilfelli treysti ég aðstandendum til að taka við kerinu og gera það við það sem hinn látni óskaði en skila jafnframt skráningu til legstaðaskrár um hvar öskunni verður dreift eða hvort hún er varðveitt. Ég veit að sumum hugnast það alls ekki en ég myndi vilja ganga alla leið í frelsisáttina hvað það varðar og treysti fólki fullkomlega til þess. Ég held að það sé sama varðandi legstaðaskrána, þegar fólk týnist er það skráð með þeim hætti. Jafnvel þótt fólk vilji láta dreifa sér yfir Vatnajökul og Varmá væri hægt að skrá það, ef ég tek tvö mjög ólík dæmi. Ég sé í rauninni ekki vandamálið og sé ekki ástæðu fyrir því að við þurfum að vera með stífa stjórnsýslu í kringum það leyfisveitingakerfi sem við erum með í dag og held að við getum einfaldað þetta til muna.