151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla.

271. mál
[20:18]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Við fjöllum um áhugavert frumvarp sem hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir flytur hér öðru sinni og ég nýt þess heiðurs að fá að vera meðflytjandi, sömuleiðis öðru sinni. Þetta er áhugavert frumvarp, kannski fullmikið sagt að það sé upplífgandi, en það er tímabært og kallast sannarlega á við samtímann, breytt viðhorf og siðferði og trúarleg viðmið. Þetta er á sína vísu umhverfismál og í aðra röndina líka loftslagsmál. Við leggjum hér til að rýmka ákvæði um bálfarir. Það getur beinlínis snert loftslagsmál því að búnaðurinn þarf að uppfylla strangar kröfur sem lúta að umhverfinu.

Við búum, herra forseti, að rótgrónum siðum og hefðum við leiðarlok lífs, um greftrun, legstæði, kirkjugarða og alla lagalega umgjörð við þessar aðstæður og talsverð íhaldssemi ríkir um málaflokkinn, kannski umfram það sem gerist annars staðar. Við höfum siði, hefðir og venjur sem við viljum ógjarnan hvika mikið frá. Svona hafa hlutirnir verið í áratugi og aldir þó að við merkjum auðvitað þróun í átt til breytinga.

Tíðni bálfara á Íslandi fer vaxandi. Eins og hv. þingmaður kom inn á voru þær 35% allra útfara 2017 en hlutfallið var komið upp fyrir 40% fyrir tveimur árum, og á þessi siður vaxandi fylgi að fagna. Hvers vegna? er spurt. Það er kannski ekki til nein einhlít skýring en það sem menn hafa hent á lofti er aukin vitundarvakning um umhverfismál og um jarðnýtingu að einhverju leyti. Við erum að nálgast Norðmenn að þessu leyti en 44% frænda okkar kjósa þessa leið. Danir og Svíar eru enn ötulli að þessu leyti en þar er hlutfallið 81% og 82%. Bretland er með 75% hlutfall, Tékkland 80% og Sviss 87%. Japanir verða ekki toppaðir en þar segir tölfræðin að hlutfallið sé 100%. Bandaríkin dvelja við 47% hlutfall bálfara, þegar við fjöllum um hefðir og venjur í þessu efni.

Í frumvarpinu eru ekki lagðar til byltingarkenndar tillögur, miklu fremur hófstilltar tilslakanir í átt til breytinga varðandi umgengni og hvílustað jarðneskra leifa einstaklinga og hugsanlegar óskir þeirra í þeim efnum. Ég tel það líka vera anga af þessu máli að þetta ýtir kannski fremur við opinni umræðu nánustu aðstandenda um óskir viðkomandi þegar hann er að komast á leiðarenda, eða þegar fyrirsjáanlegt er að viðkomandi sé að kveðja. Þetta skapar kannski að einhverju leyti umræðu um ósk þess sem í hlut á, hvað hann vill, hvernig hann sér þetta fyrir sér. Eins og hv. þingmaður kom inn á eru miklar skorður við þessu hér, og það er kannski að óþörfu. Lagt til að dreifing ösku verði gefin frjálsari, losað um hömlur og ekki verður lengur háð stífum skilyrðum um að grafa ker í skilgreindu grafarstæði í skilgreindum kirkjugarði, eins og nú er trúlegast skilyrði. Fram kemur í greinargerð að vaxandi hluti einstaklinga óski þess að fá að dreifa ösku utan kirkjugarða.

Sinn er siður í landi hverju. Í greinargerð er stutt yfirlit um hátt nágrannalandanna. Norðmenn eru, eins og kunnugt er, trúfastir og traustir og fastir fyrir að ýmsu leyti, ekki síst í trúarlífi en þeir hafa skilgreint sínar leiðir í meðferð dufts að lokinni bálför og gengið býsna langt í frjálsræðisátt að ýmsu leyti, ef hafðar eru í huga fastar hefðir þeirra. Hver sá sem hefur náð 15 ára aldri telst geta sótt um að jarðneskum leifum sínum að bálför lokinni verði dreift í náttúrunni. Samkvæmt norskum útfararlögum skal bálför fara fram eigi síðar en tíu dögum eftir andlát. Að bálför lokinni skal jarðarför fara fram í síðasta lagi sex mánuðum eftir bálför en heimilt er að gera á því undantekningar ef sérstaklega stendur á. Hvað varðar dreifingu á dufti yfir landið gilda sjálfsagt önnur tímamörk. Að dreifa ösku látins einstaklings í Noregi á opin svæði með skilmálum, svo að ég leyfi mér að varpa svolitlu ljósi á það hvernig þetta er í okkar næsta nágrannalandi, hjá frændum okkar þar, er viðurkennt sem valkostur við graflagningu. En ekki verður bæði haldið og sleppt, það er ekki hægt að fá að dreifa hluta af öskunni og setja síðan hluta í grafreit í kirkjugarði. Í öllum tilvikum er gengið út frá því að viðkomandi hafi sjálfur valið. Að öðrum kosti er farið að óskum ættingja enda sé það í samræmi við væntar óskir viðkomandi. Í Noregi er það þannig, samkvæmt reglugerðum, að ekki er heimilt að dreifa ösku viðkomandi á marga staði, eða eins og fyrr segir að dreifa að hluta og grafa í jörð að hluta. Það samræmist ekki norskum reglum.

Þegar um er að ræða dreifingu ösku í sjó er ekki skilyrði að það sé á rúmsjó, það er heimilt að gera það nær landi, innan skerja og það er líka heimilt að dreifa ösku látinna inni á fjörðum. Þó eru settar skorður við erilsöm frístundasvæði. Menn þurfa að taka tillit til aðstæðna og útilífs og t.d. má ekki dreifa ösku við strönd þar sem fjölmenni er gjarnan eða á íbúðar- eða frístundahúsasvæðum. Þá er einnig opnað fyrir það að dreifa megi ösku í ár, vatnsföll og líka í stöðuvötn þar sem aðstæður leyfa og víðerni er nægt. Hnykkt er á því að víðerni þurfi að vera nægt. Sérstakar reglur gilda um svæði sem eru með takmarkaðan aðgang að einhverju leyti, vernduð eða friðuð svæði en það þarf að sækja sérstaklega um leyfi, en auðvitað er þetta allt saman háð leyfum. Þá hefur orðið vinsælla með tímanum að sökkva kerjum í sjóinn í stað þess að dreifa öskunni í hafið en þá er það sett sem skilyrði að kerin séu úr forgengilegu efni sem leysist upp.

Ætíð er lögð á það talsverð áhersla meðal Norðmanna að dreifing ösku látins einstaklings skuli fyrst og fremst eiga sér stað á svæðum sem ekki eru í byggð. Það kallast á við þau ákvæði sem við búum við, að þetta skuli vera í óbyggð, en þeir slaka þó örlítið meira til í þessu. Þeir gera það þó að skilyrði að víðáttan sé næg og jarðvegur sé þannig að askan eigi greiða leið niður í hann og gangi í samband við náttúruna, taki þátt í hringrásinni. Heimilt er að dreifa ösku í skóglendi en takmörk sett við svæði sem eru útivistarsvæði. Það hefur verið dálítil ásókn í að fá að dreifa ösku á mjög takmarkað og afmarkað svæði, t.d. í nágrenni við frístundahús fjölskyldunnar. Reglugerð leggur áherslu á ákvæðin um að ösku skuli ekki dreift í byggð og jafnframt það markmið að askan skuli greiðlega geta horfið í jarðveginn og hringrás náttúrunnar og ekki verði hægt að merkja ummerki um öskuna til lengri tíma. Í Noregi er það fylkismaður hvers fylkis sem annast leyfisveitingar en auðvitað þarf að uppfylla ákveðið form. Það er vandalaust og ákvörðun hans er hægt að vísa til ráðuneytis.

Það er fróðlegt að blaða í útfararlögum frænda okkar í Noregi og þar kemur ýmisleg á óvart. Öll sveitarfélög skulu hafa til ráðstöfunar grafarstæði eða jarðnæði, legstæði, í þessu skyni sem svarar til 3% af íbúum sveitarfélagsins. Við erum vön því að geta ráðstafað leiðum og landi um ótakmarkaðan árafjölda. En í Noregi er þessu öðruvísi háttað því að heimilt er að nota gröf að nýju eftir 20 ár frá síðustu jarðsetningu, ef annað er ekki tekið sérstaklega fram en duftker má leggja í kistugröf fyrr. Ef kirkjugarður er aflagður skal hann friðaður í 40 ár frá síðustu jarðsetningu. Umráð grafarstæðis eða leiðis gildir í 20 ár, og greiða þarf af því gjald. Ef það fer á eindaga eru eftirlifendur ekki í góðum málum. Það er sem sagt hægt að framlengja leiði, að ósk ættingja, ef það er vel hirt og því er haldið við og sýnd ræktarsemi og ef það er í samræmi við skipulag kirkjugarðsins. Þarna virðast Norðmenn vera miklu meira inni á því að nýta land betur, nýta legstæði betur. Þegar umráðatímanum lýkur skal rétthafa gefast kostur á að fjarlægja grafstein eða önnur minni. Ef það er ekki gert innan sex mánaða safnar embættið því saman. Þarna eru viðhorfin önnur en við þekkjum. Svo virðist sem samfélagið, hið geistlega vald, líti svo á að þegar viðkomandi er látinn ljúki þar með skyldum samfélagsins gagnvart honum nema ættingjar vilji gera aðrar ráðstafanir. Þetta var um útfararlögin í Noregi, er kannski örlítið hliðarspor við það frumvarp sem við fjöllum hér um.

Herra forseti. Þetta er ekki róttæk breyting sem við leggjum til í þessu efni, en vissulega er um tilfinningamál að ræða. Eins og hv. flutningsmaður kom inn á eru allir einhuga um að taka skuli á þessum málum og fjalla um þau af mikilli virðingu við alla þá sem við sögu koma. Rétt eins og við höfum verið alin upp og hvergi er gengið á svig við mannvirðingu heldur horft til meira frjálsræðis og leitað eftir að verða við hinstu óskum einstaklinga með verðugum hætti. Þess vegna vona ég að málið fái góða umræðu, jákvæða umfjöllun og farsæla afgreiðslu um síðir og að Íslendingar feti í kjölfarið sömu slóð og nágrannaþjóðir okkar, af virðingu við alla þá sem gengnir eru.