151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

kosningalög.

339. mál
[22:21]
Horfa

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Í fyrsta lagi tek ég undir með hv. þingmanni. Það er rækilega undirstrikað bæði í greinargerð frumvarpsins og ég kom aðeins inn á það í framsöguræðu minni að ætlunin er að við færum okkur yfir í það að einn aðili hafi þetta verkefni viðvarandi með höndum og beri ábyrgð á því og að ekki sé litið á undirbúning og framkvæmd kosninga sem tímabundna törn eins og okkur Íslendingum er nú gjarnan tamt að gera. Ég þekki þetta svo sem ágætlega og veit hvernig þetta hefur líka verið í þeim ráðuneytum sem hafa komið að framkvæmd kosninganna, dómsmálaráðuneytinu í alþingiskosningum og sveitarstjórnarráðuneytinu í hinum að einhverju leyti. Þar hafa menn kannski verið með einn mann sem hefur unnið við þetta áður og svo er ráðið fólk til að taka törnina. Svo er það búið. Hér er hugsunin allt önnur, að reyna að byggja upp samfellu, samræmingu og stofnanaminni í stjórnsýslueiningu sem annast þetta mikilvæga verkefni.

Varðandi tölfræðina um kjósendur myndi ég vilja fá athuga það aðeins betur. Ég er sammála hv. þingmanni um að mikilvægt sé að það sé tryggt að menn hafi greinargóðar upplýsingar. Það tengist auðvitað því sem þarna er að finna um metnaðarfull áform um kosningarannsóknir og að greiða götu þess að menn geti unnið með akademíunni og öðrum slíkum.

Þegar kemur að því að ganga svo langt í samræmingu að yfirkjörstjórnir séu einfaldlega lagðar niður og kjörstjórnir sveitarfélaganna sjái um þetta má kalla það róttæka tillögu. En í fyrsta lagi er það nú þannig að á Íslandi eru tvö stjórnsýslustig. Í öðru lagi eru kjörstjórnir sveitarfélaganna staðreynd og þurfa að vera staðreynd og þurfa að vera góðar og vel upplýstar og kunna að framkvæma kosningar. Þær eru þátttakandi í alþingiskosningum. Auðvitað er það einföldun í sjálfu sér að þrepin séu bara tvö og leiðbeiningar landskjörstjórnar gangi þá beint niður í þær kjörstjórnir sveitarfélaga sem sjá um kosninguna á viðkomandi svæði og annast talningu atkvæða. (Forseti hringir.) Eins og ég sagði líka: Með því að sveitarfélögin eru að stækka og þau eru að eflast er ég trúaður á að þetta fyrirkomulag geti orðið ágætt. En enn segi ég: Ef menn telja áfram (Forseti hringir.) hlutverk fyrir yfirkjörstjórnir kjördæma þá ræða menn það.