151. löggjafarþing — 39. fundur,  16. des. 2020.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur .

374. mál
[12:35]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið eitt dæmi um aðgerð sem kostar rúma 2 milljarða, nokkur hundruð milljónum króna meira en þetta frumvarp, verði það að lögum, kostar ríkissjóð. Það er að hækka ellilífeyri um 15.760 kr. líkt og lífskjarasamningurinn gerir ráð fyrir á lágmarkstekjutrygginguna. Það er eitt dæmi. Hv. þingmaður spyr hvort ekki sé sanngjarnt að skattleggja raunverulegar tekjur. Þetta frumvarp tekur ekki á því að fjármagnstekjur yfir höfuð séu ekki skattlagðar eftir raunverulegri upphæð. Það er ekki að gera það. Og af hverju skyldi það vera, hv. þingmaður? Það er vegna þess að það er bara of flókið. Þess vegna er verið að leita annarra leiða til að koma til móts við þá hugmynd að skattleggja raunávöxtun.

En eins og ég fór ágætlega yfir í ræðu minni þá eru þeir sem eiga inneign, sem eiga inni á bankabókinni sinni 6 millj. kr. varðir fyrir verðbólgu með frítekjumarkinu eins og það er. Þegar tölur eru greindar þá er þessi leið, að setja vexti, arð og söluhagnað undir frítekjumarkið, að gagnast þeim allra ríkustu. (Forseti hringir.) Það finnst mér ámælisvert þegar við glímum við aukinn eignaójöfnuð hér á landi eins og annars staðar (Forseti hringir.) Og mér finnst líka ámælisvert að gera það á þessum tíma, hvort tveggja skiptir máli.