151. löggjafarþing — 39. fundur,  16. des. 2020.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur .

374. mál
[12:38]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það er mála sannast að við hv. þingmaður erum ekki nákvæmlega á sama stað í hinu pólitíska litrófi en við erum þó sammála um það sem hún gerði fyrst að umræðuefni í sínu svari, og það var nú einu sinni þannig að minn flokkur, Miðflokkurinn, lagði fram tillögu um að lífskjarasamningarnir næðu til eldra fólks og það fengi þessar rúmu 15.000 kr. á mánuði. Við máttum bæði sæta því að okkar tillögur í þessum efnum voru felldar. Það var ákvörðun ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur og flokkanna sem standa að þeirri ríkisstjórn að fella þá tillögu. Reyndar var önnur tillaga okkar felld, sem var sú að eingreiðslur sem hafa verið ákveðnar til öryrkja og fleiri hópa skyldu jafnframt ná til aldraðra eða þeirra sem eiga rétt á ellilífeyri, og það eru samtals 70.000 kr. Það var líka fellt.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég held að við séum alveg sammála um það að ef gera á þessa hluti upp, hagnað og tap og allt saman, í ólíkum eignasöfnum, þá er auðvitað kallað eftir miklu bókhaldi og mikilli skriffinnsku. Ég skil vel að meiri hluti nefndarinnar hafi ákveðið að leysa þetta með einni fjárhæð. Ég tek eftir því að hv. þingmaður sættir sig ekki við það. En í mínum huga er það réttlætismál fyrir fólk, venjulegt fólk sem hefur stofnað til sparnaðar af sínum launatekjum, að það njóti lágmarksréttlætis sem það hefur ekki notið þegar kemur að skattlagningu fjármagnstekna. (Forseti hringir.) Mér finnst að menn þurfi að hugsa sig örlítið um. (Forseti hringir.) Þó að það kunni að koma öðrum til góða má ekki svipta það fólk því sjálfsagða réttlæti (Forseti hringir.) að ekki sé verið að skattleggja meira en eiginlegar tekjur.