151. löggjafarþing — 39. fundur,  16. des. 2020.

greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar á tímum kórónuveirufaraldurs .

362. mál
[15:19]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér er enn eitt málið sem ætlað er að aðstoða þá sem eiga erfitt vegna Covid-faraldursins og sóttvarnaaðgerða og slíks. Þetta er styrkur, aðstoð við íþróttafélög, mjög mikilvæg aðstoð og það er jákvætt að málið tók þeim breytingum í meðförum nefndarinnar að búið er að taka verktaka inn í það. Það breytir því hins vegar ekki að út af stendur ekki eingöngu ákveðinn ágreiningur heldur ruglingur um hvernig málum er varðar launatengd gjöld skuli fyrir komið. Eru þau inni í þessu máli eða ekki? Þar hefur líka verið ruglað saman tengslum launatengdra gjalda við verktaka. Það er skemmst frá því að segja að málið er statt þar núna að þeir sem eiga að njóta góðs af skilja fæstir nákvæmlega um hvað er verið að tala. Það er miður og ég óska eftir því að málið verði kallað inn til nefndar á milli 2. og 3. umr., einfaldlega til þess að við fáum nákvæmlega úr því skorið hver aðstoðin er við þessa hópa og helst fá því breytt þannig að launatengd gjöld falli undir aðstoðina, en það er önnur saga. En lágmarkið er að málið frá okkur sé afgreitt (Forseti hringir.) þannig að það sé skýrt til hvers refirnir eru skornir.