151. löggjafarþing — 39. fundur,  16. des. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna laga um kynrænt sjálfræði.

21. mál
[15:37]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég er enn að velta fyrir mér þessum lagabreytingum og tek fram að í mörgum tilvikum er um tiltölulega saklausar breytingar að ræða, en alls ekki öllum. Ég notaði í gær orðið öfgar til að fjalla um hreinsun á orðinu móðir úr ýmsum lögum, og sérstaklega úr hegningarlögunum. Móðir er orð sem er rótgróið í hugum og vitund landsmanna. Móðir er manneskja sem elur barn eða manneskja sem ber barn undir belti. Í gær velti ég einnig fyrir mér þessari breytingu á 192. gr. hegningarlaganna sem leggur refsingu við því að maður rangfæri sönnun fyrir faðerni eða móðerni barns t.d. með rangri skýrslu fyrir yfirvaldi. Þar er verið að fella brott orðið faðerni og móðerni og setja þess í stað inn orðið foreldrastaða. Herra forseti. Orðið foreldrastaða kemur ekki í stað orðanna móðerni eða faðerni og afbakar refsiákvæðið.