151. löggjafarþing — 39. fundur,  16. des. 2020.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur .

374. mál
[16:16]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það kemur ekki á óvart að heyra hér frá Samfylkingu og öðrum stjórnarandstöðuflokkum að það megi bara ekki lækka skatta á fólk, jafnvel þótt við séum að tala um frítekjumark þar sem allur yfirgnæfandi meiri hluti fólks á landinu er með fjármagnstekjur sínar undir 300.000 kr. Og þegar menn koma hingað upp og flytja tilfinningaþrungnar ræður um ríkasta 1% á Íslandi þá eru menn að blekkja vegna þess að þetta mál hefur ekkert með ríkasta 1% að gera. Þetta hefur með venjulegt fólk að gera sem er með venjulegan sparnað og er því laust við að greiða fjármagnstekjuskatt af honum. Þetta er sanngirnismál vegna sumarhúsanna, sanngirnismál. Og þetta er gott mál vegna þess að við erum meira að segja með frítekjumark vegna fjármagnstekna í almannatryggingakerfinu. Hvers vegna ættum við að leggja mikla áherslu á að skattleggja þessar sömu tekjur sem við viljum undanskilja skerðingum í almannatryggingum? Þetta er mál fyrir venjulega Íslendinga með venjulegan sparnað og þetta er gott mál. Þetta eru skilaboð sem eru mótvægi við (Forseti hringir.) hækkun fjármagnstekjuskattsins sem var hér í upphafi þessa kjörtímabils og þetta er áherslubreyting, virkilega gott mál. En það kemur ekki á óvart að Samfylkingin (Forseti hringir.) bara getur ekki þolað skattalækkanir. (Forseti hringir.) (LE: Þú varst að hafna skattalækkunum sem við lögðum til í gær.)