151. löggjafarþing — 39. fundur,  16. des. 2020.

búvörulög.

376. mál
[18:34]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að byrja á að gleðjast örlítið yfir því að hv. þingmaður gat rifjað upp þá gömlu góðu tíma þegar við gátum ferðast á milli landa. En þetta er auðvitað áhugaverð nálgun. Ég er í sjálfu sér ekkert ósammála hv. þingmanni því að það er gríðarlega mikilvægt að við fáum betri upplýsingar um landbúnaðinn og svo sem um margar aðrar atvinnugreinar, eins og hv. þingmaður nefndi. Þegar við höfum ekki upplýsingarnar er svolítið erfitt að átta sig á réttu leiðinni. En af því að hv. þingmaður nefnir tollabandalagið, eins og hann nefnir Evrópusambandið, þá er staðan sú að við erum svo heppin að vera með ansi góða samninga við Evrópusambandið sem tryggja einmitt að við erum ekki í sömu stöðu og Afríkuríkin og getum flutt út vörur og við erum að flytja út töluvert mikið magn af dýrmætri vöru til Evrópusambandsins. Það tryggja einmitt þessir samningar. Ég óttast þess vegna ekkert og fagna því bara að verið sé að óska eftir úttekt á þessum samningum því að ég held að niðurstaðan verði jákvæðari en margir vilja meina.