151. löggjafarþing — 39. fundur,  16. des. 2020.

búvörulög.

376. mál
[19:30]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tók bara force majeure-ákvæðið sem dæmi. Það er fullt af ákvæðum í flestum samningum sem ég veit um sem fólk vill ekkert endilega nýta. Það er ekki það sama að telja ákvæðið ekki í gildi og vilja ekki nota það vegna þess að það hentar ekki hagsmunum þess sem heldur samninginn. Þetta er tvennt ólíkt. Mér finnst þetta grautast svolítið saman í orðræðu hv. þingmanna Miðflokksins. Ég er ekki á þeirri línu að 112. og 113. gr. séu einhverjar kjarnorkusprengjur, að það myndi eyðileggja EES-samstarfið að beita þeim. Ég trúi því ekki. En ég held hins vegar að það sé ekki í samræmi við íslenska hagsmuni, heildarhagsmuni þjóðríkisins Íslands. Þess vegna væri ég á móti því að beita þeim fyrir utan það að ég er á móti málinu. Ég tel þetta vera vonda leið til að vinna bug á vandanum. Ég viðurkenni alveg vandann eins og allir aðrir, við erum ekki ósammála um hann. Það er enginn ágreiningur um vandamálið, það er bara ágreiningur um lausnina.

Sú lausn að ætla að fara í samkeppnishömlur hefur ótvíræða og vel þekkta ókosti. Þeir eru m.a. að þegar þjóðríki grípa til tollverndar til að bregðast við efnahagsáfalli lengjast efnahagsáföllin og það dregur úr nýsköpun sem við þurfum nauðsynlega á að halda. Ég veit að ástandið er vont eins og það er, það gerir ekki hvaða lausn sem er endilega jákvæða. Og talandi um kjark og þor. Kjarkur og þor breytir ekki vondri hugmynd í góða. Mér finnst það svolítið einkenna talið hér á Alþingi um kjark og þor og hugrekki, að það sé einhver lausn. Auðvitað eigum við að hafa kjark og þor, það er bara sjálfsagt, og auðvitað eigum við að hugsa hlutina til enda, sem mér finnst persónulega skorta oftar hér á bæ en kjarkinn og þorið.

Ég ætla að koma með spurningu, virðulegi forseti, á nokkrum sekúndum. Ég velti fyrir mér hvernig hv. þingmaður sér fyrir sér að við myndum nota neyðarástand sem réttlætingu fyrir beitingu 112. og 113. gr. EES-samningsins. Hvernig myndum við meta hvenær það neyðarástand væri liðið hjá? Sér hv. þingmaður fyrir sér að landbúnaðurinn muni blómstra á þvílíkan hátt á næstu árum, ef við gerum þetta, að við getum á einhverjum tímapunkti sagt að nú getum við lagt niður alla tollvernd?