151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

búvörulög.

376. mál
[11:31]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég styð þetta mál og mér finnst það mjög mikilvægt fyrir innlenda framleiðslu. Mér finnst það mjög sérstakt ef talað er um að hægt sé að bjarga landbúnaðinum með einhverjum öðrum aðgerðum, eins og þær verði gripnar úr lausu lofti. Það hlýtur að koma niður á neytendum, og bændur eru líka neytendur, ef við förum að breyta styrkjunum. Þetta snýst líka um matvælaöryggi. Framsóknarmenn hafa komið með góðar tillögur sem hafa verið samþykktar hér um matvælaöryggi. Allar þjóðir heims eru að fara að taka þau mál sterkari tökum og vera meira á varðbergi hvað varðar innflutt matvæli og þetta skiptir okkur máli. Ég treysti ekki versluninni til þess að skila þessum ábata til neytenda því að hún hefur ekki gert það hingað til.