151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

búvörulög.

376. mál
[11:32]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Umræðan um þetta mál hefur verið mjög athyglisverð á margan hátt og höfð uppi stór orð um ýmislegt í þessum efnum. Þess vegna er rétt að rifja aðeins upp aðdragandann að þessu. 1. janúar var reglum um útboðin breytt. Það var gert á grundvelli vinnu sem var afrakstur starfshóps sem skipaður var fulltrúum bænda, atvinnulífs og neytenda. Aðstæður hafa breyst eins og allir þekkja og viðurkenna og horfast í augu við. Skaðleg áhrif á bændur og landbúnað í landinu eru óumdeild. Þetta frumvarp er sett fram til að mæta þeirri stöðu, takmarka tjónið og taka tímabundið upp eldra fyrirkomulag við úthlutun tollkvóta. Kjarni málsins er sá að afrakstur þessarar ríkisstjórnar er kerfi við úthlutun tollkvóta sem er hagstæðara fyrir íslenska neytendur en það kerfi sem þáverandi landbúnaðarráðherra og formaður Viðreisnar skildi eftir sig. Eftir allar þessar fullyrðingar og innihaldslausu ásakanir (Forseti hringir.) er það einföld, tær og hrein staðreynd máls.