151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

búvörulög.

376. mál
[11:35]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér er ekkert verið að deila um hvort það eigi eða þurfi að styðja matvælagreinarnar, sem eiga vissulega í erfiðleikum. Hér er verið að takast á um hvernig á að gera það. Og af því að hv. þingkona Halla Signý Kristjánsdóttir talaði um að það væri engin önnur leið en að gera þetta með því að velta þessu yfir á neytendur, þá vil ég bara að mótmæla því vegna þess að allt árið erum við búin að vera að gera það með almennum aðgerðum. Ég minnist þess ekki að stjórnarliðar hafi farið fram á það þegar farið var í risaaðgerðir til aðstoðar flugfélagi, að það ætti að fjármagna með hærri farþegagjöldum, eða styðja við hópferðafyrirtæki, að það ætti að gera með einhverjum farþegagjöldum eða kolefnisskatti. Hér er verið að tala um að láta neytendur í landinu greiða fyrir sértæka aðstoð við þessa grein. Við eigum að styðja bændur og matvælaframleiðendur en við eigum að gera það með sama hætti og við höfum gert áður, nú í ár.