151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

búvörulög.

376. mál
[11:47]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég tek undir með síðasta ræðumanni. Við þurfum að taka þetta alvarlega. Menn fara svolítið um víðan völl um hvort hér sé verið að bregðast tímabundið við vanda bænda vegna kórónuveirufaraldursins eða nýta tækifærið og hverfa aftur til fortíðar, þeirrar fortíðar sem hluti þingmanna lítur á sem hið eiginlega himnaríki. Ég mótmæli því og tek undir með þeim sem hafa hér talað, ekki síst formanni Viðreisnar, hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, um að til eru aðrar leiðir. Við þurfum að mæta þeim vanda sem við blasir í landbúnaði og á rætur að rekja til úrelts styrkjakerfis í grunninn ef við erum að tala um raunverulegan vilja til úrbóta til handa þeim sem starfa núna í landbúnaði, og við viljum að starfi þar til lengri tíma litið. Ég kalla eftir meiri hugmyndaauðgi frá þeim sem nú sitja við stjórnvölinn, (Forseti hringir.) meiri hugmyndaauðgi við að efla landbúnað, mæta vanda bænda (Forseti hringir.) en þeirri leið einni að hækka tolla og setja álögur á neytendur. Það hlýtur að vera vilji til að finna betri leiðir.