151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[12:35]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Ég biðst afsökunar á tímanotkuninni. Hér fór hv. þm. Haraldur Benediktsson mjög vel yfir af hverju það er pólitík að vilja gera hlutina rétt, að formið í þessu sé rétt, að við förum eftir þeim lögum sem við höfum sett til að gera hlutina vel. Þar er pólitíkin mín. Þar er pólitík Pírata, að gera hlutina vel og gera hlutina rétt. Ef við erum með kostnaðar- og ábatagreiningu á því að byggja upp heilbrigðisþjónustu víðar á landinu, á Akureyri, á Egilsstöðum, í Neskaupstað, á Ísafirði eða hvernig sem það er, ef við erum með áhrifin af því metin þá getum við tekið pólitískt upplýsta ákvörðun um að stefna að því að fara í þá átt, því að ég efast ekki um að það sé góð ákvörðun. En án þess að hafa fyrir framan okkur matið á þeim áhrifum með byggðasjónarmiðum líka, þá höfum við ekki forsendur til að taka þá ákvörðun nema að giska. Ég er ekki í þeirri pólitík að vilja giska.