151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[12:38]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Haraldi Benediktssyni fyrir framsögu hans og yfirferð. Við erum núna að reyna að skyggnast inn um gættir til framtíðar við svolítið sérstakar aðstæður, held ég að óhætt sé að fullyrða. Bæði er fjármálaáætlun seint á ferðinni, eins og við vitum, og snemma á næsta ári þurfum við að hefjast handa við endurskoðun hennar. Svo eru dagar núverandi ríkisstjórnar að verða taldir í þeim skilningi að kosningar eru eftir níu mánuði, þannig að aðstæður eru allsérstakar.

En það sem mig langaði í þessu stutta andsvari að minnast á er að skuldir ríkissjóðs eru orðnar mjög miklar og þær munu vaxa á tímabilinu, spátímabilinu. Árið 2025 er gert ráð fyrir að þær verði nálægt 60% af landsframleiðslunni. Þá skiptir svo miklu máli hvert vaxtastig slíkra skulda er og auðvitað er óvissa um það. En við vitum þó að við, eða ríkissjóður, að minnsta kosti við núverandi aðstæður, greiðum umtalsvert hærri vexti en aðrir ríkissjóðir í Evrópu. Þannig að árið 2025 fara (Forseti hringir.) um 2% af landsframleiðslunni í vexti. Það eru 60 milljarðar á því ári, sem er gríðarlega há fjárhæð, (Forseti hringir.) á meðan önnur ríki í Evrópu greiða um 1%. (Forseti hringir.) Ég spyr hv. þingmann hvaða leiðir séu færar í þessu og af hverju þessi vandi stafi, þ.e. vaxtastigið.