151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[12:44]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þóttist alveg vita hvaða svar hv. þingmaður ætlaði að fá. Hann svaraði sér sjálfur og hafði fastmótaða skoðun á því. Ég held að það séu fleiri þættir sem geta skýrt þennan mun en bara krónan. Ég held að það endurspeglist líka í hinu sveiflukennda hagkerfi okkar sem byggir á nýtingu náttúruauðlinda að svo stórum hluta, jafnvel hvort sem við horfum til sjávarútvegs eða ferðaþjónustu í þeim efnum. Smæðin fer ekki frá okkur þótt við tökum upp aðra mynt. Ég held að við leysum ekki allt með annarri mynt og þó að hv. þingmaður hafi öðlast sannfæringu fyrir því þá hef ég hana ekki. En kostir krónunnar eru mér líka ljósir og ég held að það væri mikilvægt að ræða það í þessu samhengi hvernig hún getur virkað með þessu sveiflukennda efnahagslífi okkar, sem er því miður sveiflukennt, sem ekki er gott, og ég ætla bara að skilja það eftir í mínu seinna andsvari.