151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[14:39]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Forseti. Fjármálaáætlun á hverju ári til næstu fimm ára snýst um stefnu stjórnvalda, hvaða áhrif hún hefur á fjárheimildir hins opinbera. Hvernig hefur stefna stjórnvalda áhrif á þá stöðu sem við erum í hverju sinni? Ef stjórnvöld væru ekkert að skipta sér af neinu, ef þjóðfélagið og skattar og allt svoleiðis væri óbreytt, hvernig myndi sviðsmyndin þróast? Hvernig yrðum við eftir fimm ár? Það er fyrsta spurningin sem við svörum með fjármálaáætlun, sem við eigum að svara um fjármálaáætlun en er ekki gert hér frekar en svo margt annað. En af því hér eru stjórnvöld sem ráða og þessi stjórnvöld ætla að gera þetta og þetta, þá gerist það að eftir fimm ár verðum við komin eitthvert allt annað. Það er ekki heldur útskýrt í þessari fjármálaáætlun frekar en svo margt annað. Þessi fjármálaáætlun er ekki stefna stjórnvalda, hún samanstendur af handahófskenndum aðgerðum hingað og þangað, sem vissulega margir, ef ekki allir flokkar kölluðu eftir fyrir síðustu alþingiskosningar, eins og viðbótum í heilbrigðiskerfið, í samgöngur o.s.frv. En þetta er allt samtíningur héðan og þaðan sem sýnir enga heildstæða stefnu um það hvernig samfélagið verður öðruvísi eftir fimm ár vegna stefnu stjórnvalda.

Í þessa fjármálaáætlun vantar stefnumörkun stjórnvalda frá A til Ö. Ekkert nema handahófskenndar aðgerðir sem eru í besta falli ágiskun á að eitthvað komi til með að ganga vel af því að — ég segi þetta með öllum þeim formerkjum sem fylgja því — í lögum um opinber fjármál segir að það eigi að kostnaðarmeta og ábatagreina aðgerðir stjórnvalda. Það er ekki gert og af því að það er ekki gert þá er það ágiskun að við náum góðum árangri þar. Kannski er það góð ágiskun eða upplýst ágiskun, fínt, frábært. Það er samt ekki útskýrt af hverju ein aðgerð er betri en önnur sem valið ætti að standa um. Við fáum ekki að sjá neitt um það. Við fáum ekki að sjá í fjármálaáætlun ef það á að byggja t.d. Sundabraut eða eitthvað svoleiðis, að þar séu margar mismunandi leiðir sem velja á um, eins og eru þó varðandi Sundabraut þar sem við fáum marga mismunandi valmöguleika til að velja úr. En við fáum ekkert svoleiðis í fjármálaáætlun.

Við fáum það varðandi borgarlínu. Þá fáum við valmöguleika um sporvagnakerfi, hraðvagnakerfi, meira og minna varðandi áherslur á almenningssamgöngur o.s.frv. Margir valmöguleikar sem metnir eru út frá áhrifum hver um sig og besti valmöguleikinn valinn. Það er ekkert svoleiðis í þessari fjármálaáætlun, ekkert svoleiðis í stefnu stjórnvalda heldur bara puttinn upp í loft, giskað á hvernig vindáttin er og ákveðið að best sé að fylgja henni. Það eru ófagleg vinnubrögð. Það eru vinnubrögð sem fara ekki samkvæmt lögum um opinber fjármál.

Við erum í þessu ástandi óvissu og höfum verið það frá því fyrir þann tíma þegar leggja átti fjármálaáætlun fram, í apríl á þessu ári. Stjórnvöld treystu sér ekki til að leggja fram sína eigin stefnu á þeim tíma og báðu um að fá að fresta því að leggja hana fram, sem mér finnst vera galið frá upphafi, því að þegar við erum í óvissuástandi ætti það að vera fyrsta skylda stjórnvalda að eyða óvissu. Og hvernig gera stjórnvöld það? Með því að leggja fram stefnu út úr óvissuástandinu.

Ef við skoðum söguleg gögn um það hvernig faraldur getur þróast er núverandi ástand mjög augljós sviðsmynd, möguleg sviðsmynd að sjálfsögðu, en mjög augljós möguleg sviðsmynd. Það kemur kúfur, það kemur annar kúfur og miðað við núverandi upplýsingar er ekkert ólíklegt að þriðji kúfurinn komi. Ég tel ekki sumarið með, þá var sama og enginn kúfur, það er ekki bylgja samkvæmt mínum stærðfræðiskilningi. Þannig að við erum búin með fyrsta kúfinn og annar kúfurinn er að klárast. Og miðað það sem við heyrum núna í dag er ekkert ólíklegt að þriðji kúfurinn komi, miðað við að bóluefnið komi seint og síðar meir. Við fáum sóttvarnalækni sem segir okkur að sóttvarnaaðgerðir komi til með að vera a.m.k. í hálft ár í viðbót, þar til um mitt næsta ár, a.m.k. Það eru fyrstu 10% af líftíma þessarar fjármálaáætlunar, áframhaldandi sóttvarnaaðgerðir. Hver eru viðbrögðin við því? Ég sé ekki viðbrögð við því nema þau sömu og birtust okkur þegar fjármálaáætlun var seinkað. Við bregðumst við því eftir því sem þörf er á. Það er ekki stefna, það eru neyðarviðbrögð. Það er líka skylda stjórnvalda, tvímælalaust, að bregðast við neyð, alveg tvímælalaust. Ég tek alveg undir það, og þingið hefur unnið mjög vel, að ég tel, með stjórnvöldum og hjálpað til við við neyðaraðgerðir. En þá vantar stefnuna. Og það er þetta mál sem við fjöllum um hérna.

Fjármálaáætlun á samkvæmt lögum, samkvæmt skipulagi, mjög eðlilegu skipulagi, að fjalla um stefnu stjórnvalda. Hvað ætla stjórnvöld að gera miðað við núverandi ástand, miðað við það ástand sem er fyrirsjáanlegt? Með bestu ágiskunum, að sjálfsögðu. Við erum ekki það góð að spá fyrir um framtíðina. Hvernig ætlum við að hafa samfélagið öðruvísi eftir fimm ár en það er núna, öðruvísi en það yrði án stefnu stjórnvalda, og út úr því núverandi ástandi sem við erum í eins og er? Ekkert svoleiðis er í þessari áætlun nema besta ágiskun og von um að það verði viðspyrna og þegar kófið klárist loksins þá fari allt í gang án þess að stjórnvöld þurfi að gera neitt nema bara að sinna þessum fjárútlátum á fleygiferð til að halda fyrirtækjunum á lífi, til að þau geti þá bara byrjað aftur eins og ekkert hafi í skorist. Það er ekkert rosalega líklegt að það heppnist. Það gæti gerst. Það er vissulega til sviðsmynd af því, en það ætti að hafa varann á.

Það sést hvergi í viðbrögðum stjórnvalda að verið sé að búast við hinu versta og undirbúa fyrir það, heldur var einhvern veginn strax búist við að þetta yrði snöggt kóf, því myndi ljúka fljótt og 3 milljarðar voru settir í fyrsta fjáraukann til auglýsinga fyrir ferðamenn til að þeir gætu hrúgast inn strax síðastliðið sumar af því að þetta yrði bara búið þá. Það var ekki áætlun, hvað svo ef það myndi ekki standast. Það var ekki búist við því versta, alls ekki. Það á að sjálfsögðu að búast við hinu besta en undirbúa það versta. En það var heldur ekki gert. Það var einfaldlega búist við því besta og undirbúið fyrir það besta. Það kann ekki góðri lukku að stýra, langt í frá.

Ég fjallaði þó nokkuð mikið um þetta þegar fyrsti fjáraukinn kom hingað, um þá stöðu sem var á þeim tíma. Það fyrsta sem ég vakti athygli á var að ef við ætluðum að komast upp úr þeirri holu sem var að myndast fyrir framan okkur þá þyrftum við að leggja áherslu á nýsköpun, ekki bara út af ástandinu sem þá var, heldur líka af því að það er einfaldlega heilbrigt fyrir atvinnulífið. Það er heilbrigt fyrir samfélagið að stóla ekki á þetta klassíska, íslenska viðskiptalíkan, að það séu fáar, stórar stoðir sem standa undir atvinnulífinu. Það eru þær sem valda þessum sveiflum í efnahagskerfinu. Við sveifluðumst með fiskinum, við sveifluðumst með álinu, við sveifluðumst síldinni, við sveifluðumst með bönkunum og nú erum við að sveiflast með ferðaþjónustunni. Ástæðan fyrir því að við þurfum að verða fjölbreyttari er svo sveiflurnar verði minni og stöðugleiki aukist. Það var ástæðan fyrir því þegar þetta ástand kom upp að við hugsuðum að við ættum að hella okkur út í nýsköpun. Þess vegna lagði minni hlutinn, undir forystu okkar Pírata, til 9 milljarða í nýsköpun. Stjórnin heyrði þessi rök, tók undir þau með því að tvöfalda það framlag sem leggja átti í nýsköpun, úr 1,5 milljörðum upp í 3 milljarða. Það kom á daginn núna í haust að það var fyllilega þörf á þessum 9 milljörðum í nákvæmlega þetta, það var nokkurn veginn nákvæmlega sú upphæð sem hefði getað nýst í þau verkefni sem sóst var eftir. Merkilegt nokk. — Nei, í rauninni ekki svo merkilegt, af því að við spurðum og þetta var í rauninni ýtrasta upphæðin sem við fengum svör gagnvart. Og í anda þess, í þessu ástandi, að gera meira en minna, þá var ekkert að því að hafa alla vega fjárheimild fyrir þeim möguleika. Ef ekki væri hægt að nýta hana alla þá yrði henni bara skilað aftur í ríkissjóð, ekkert alvarlegt þar.

En hins vegar var stefna stjórnvalda að leggja fram í rauninni — eða eins og hæstv. fjármálaráðherra sagði, að það væri ekki hægt að koma öllu þessum peningum út í atvinnulífið svona hratt. Reyndin varð bara: Jú, það var víst hægt. En fjárheimildirnar voru ekki til staðar þannig að það gerðist ekki. Ef við hefðum lagt til meiri fjárheimildir ef möguleikinn gæfist værum við mögulega á allt öðrum stað í dag og byrjuð að vaxa vel út úr þeirri kreppu sem við erum í núna, af því nýsköpun tekur tíma. Það þýðir bara það að við erum búin að tapa meira en hálfu ári af vextinum í að skjóta rótum.

Þetta birtist t.d. í stefnu stjórnvalda um meðhöndlun á Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Öll þau gögn sem við höfum kallað eftir sýna að sú stefna stjórnvalda, sú ákvörðun stjórnvalda að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð Íslands var ekki byggð á neinu nema pólitík á þeim tíma. Þegar sagt var að peningarnir sem færu í Nýsköpunarmiðstöð Íslands myndu nýtast betur í verkefnum annars staðar eða hjá öðrum aðilum með því að taka burt stjórnsýsluna og nýta stjórnsýslupeningana í verkefni hingað og þangað — þegar sú fullyrðing var sett fram voru þau gögn ekki til sem styðja þá fullyrðingu. Það þýðir það að sú fullyrðing var ágiskun. Hún var ekki studd með gögnum.

Þannig er þessi fjármálaáætlun út í gegn. Hún er ágiskun á fjárheimildir hingað og þangað. Þetta mun skila árangri, þetta skilar árangri, höldum við, af því að mælikvarðarnir, kostnaðargreiningin, ábatinn — mælikvarðarnir eru ónákvæmir, kostnaðarmatið er ekkert, ábatagreiningin engin, engin valkostagreining, ekkert, ekki neitt. Ekkert sem hægt er að byggja á til að eiga einhvers konar vitræna umræðu um hvernig við förum með fjárheimildir almennings, skattfé almennings, ekki neitt. Við eigum að fá ársskýrslu frá ráðherra um mitt hvert ár sem ráðherra kynnir og útskýrir: Ég fékk fjárheimild til að vinna að ákveðnum verkefnum, ná ákveðnum markmiðum. Það tókst að gera það af því að fjárheimildirnar voru vel undirbúnar og nýttust vel og markvisst fyrir þau verkefni og í áttina að þeim mælikvörðum sem við eigum að miða við.

Ráðherra getur ekki sagt svoleiðis hluti í ársskýrslum sínum í dag, það er ekki hægt af því að það vantar rökstuðninginn fyrir Alþingi fyrir því hvað verkefnin kosta og hver ábatinn af þeim er. Þannig að ráðherra getur alltaf hreykt sér af því að hafa náð árangri því að væntanlega og vonandi skilum við alltaf árangri með því að fjárfesta í verkefnum. Kannski gerist það ekki alltaf en við vonum alla vega að við séum a.m.k. á þeim stað að þær fjárheimildir sem við samþykkjum í hin og þessi verkefni skili einhverjum jákvæðum niðurstöðum. Það væri nú verra ef við værum ekki einu sinni á þeim stað. En ég get ekkert fullyrt um það af því að þetta er allt ágiskun.

En mig langar að fjalla aðeins um formið sem ég ræddi í andsvörum við hv. þm. Harald Benediktsson, þ.e. að hafa lög um opinber fjármál eins og þau eru, að ákvarðanir og stefna stjórnvalda sé grundvölluð á gagnsæjum upplýsingum, gögnum um hvaða árangri fjárheimildir komi til með að skila.

Það er alger grundvallarregla, algjört grundvallarviðmið að stjórnvöld rökstyðji stefnu sína og ákvarðanir. Í tilviki fjárheimilda, í tilviki þess að fara með skattfé almennings, þá þýðir það að þegar stjórnvöld leggja til aðgerðir til að minnka t.d. fráflæðisvandann, sé það útskýrt: Hérna eru valmöguleikar um aukna heimaþjónustu, um að byggja fleiri hjúkrunarrými, að auka einhvers konar aðra þjónustu einhvers staðar, og ýmislegt svoleiðis. Að það sé útskýrt að ef við setjum 500 millj. kr. í aukna heimilisþjónustu þá skili það þessum árangri, og ef við leggjum 2 milljarða í að byggja fleiri hjúkrunarheimili þá skili það einhverjum öðrum árangri. Ef við leggjum bara 1 milljarð af hinu og 500 milljónir á þessu og blöndum saman mismunandi lausnum, þá skilar það annars konar árangri.

Það er þessi valkostagreining sem á að fara fram um að þessi dreifing fjármuna á milli þessara verkefna skili okkur betri árangri en ef við myndum dreifa þeim einhvern veginn öðruvísi eða einbeittum okkur einungis að einum af þeim þáttum sem í boði eru. Hvernig birtist það okkur? Því að þetta er dæmi um verkefni sem verið hefur augljóst í þó nokkur ár, við höfum ítrekað talað hér í þingsal um þennan svokallaða fráflæðisvanda, að þegar sjúklingar klára meðferð hjá Landspítalanum þá eru þeir einfaldlega fastir þar í dýrum rýmum og fleiri komist ekki að af því að það er ekki viðeigandi þjónusta fyrir þá heima eða í hjúkrunarrýmum eða þess háttar, sem væri ódýrara úrræði. Þetta er þessi fráflæðisvandi. Með hvaða hætti er verið að glíma við hann í fjármálaáætlun? Ekki neinum, bara bókstaflega ekki neinum.

Hvað gerist síðan í 2. umr. fjárlaga? Þá koma allt í einu inn 1.350 milljónir á næsta ári sem eiga að leysa vandann — ekki alveg, en næstum því. Hvernig eiga þessar 1.350 milljónir að leysa vandann? Spyr ég þá sem nefndarmaður í fjárlaganefnd. Hvert er svarið? Ja, við verðum að leigja húsnæði og við setjum eitthvað af þessu í heimahjúkrun o.s.frv. Þau vita það ekki, ætla bara fá þessar 1.350 milljónir og segja að þær leysi vandann svona næstum því alveg. Það eru þessi vinnubrögð sem ég kvarta yfir hástöfum aftur og aftur. Þetta má ekki gerast svona. Það bara má það ekki. Ég skal meira að segja trúa því að þessir fjármunir komi til með að skila árangri. En til þess að við getum metið það eftir á hvort einhverjar aðrar aðgerðir hefðu virkað betur til að við getum tekið betri ákvörðun í framhaldinu um notkun fjárheimilda, þá þarf að segja það fyrir fram hvernig á að ná þeim markmiðum. Þetta er áætlanagerð, hana vantar algerlega hérna. Það getur síðan komið upp úr dúrnum þegar við nálgumst verkefnin, að hægt sé að færa eitthvað aðeins á milli t.d. hjúkrunarheimilanna eða heimaþjónustunnar eða eitthvað því um líkt, til þess að ná betri árangri. Það er bara gott og blessað að við komumst að því eftir því sem við vinnum verkefnið nákvæmar, að það þurfi að hliðra til hlutum aðeins til þess að ná betri árangri, sem er ekki samkvæmt áætlum. Frábært, gerið það endilega. Þess vegna erum við með lög um opinber fjármál sem veita ráðherra aðeins meira svigrúm til að færa til fjármuni innan sinna málaflokka og málefnasviða til að ná betri árangri en áður þar sem þetta var rosalega fast á hverjum fjárlagalið.

Núna erum við með meiri sveigjanleika til að ná þeim markmiðum sem stefnt er að. Þegar verið er að vinna verkefnin getur komið upp ný hugmynd sem hægt er að bregðast við á þann hátt. En við stöndum frammi fyrir því hérna á þingi að þurfa að samþykkja fjárheimild upp á 1.350 milljónir í verkefni sem mun líklega leysa þennan vanda. Við vitum ekki alveg hvernig, en það er bara þannig.

Þetta eru vinnubrögð sem Alþingi á ekki að sætta sig við. Alþingi á að spyrja: Hvernig sjáið þið þetta fyrir ykkur þegar allt kemur til alls? Og gera sér fyllilega grein fyrir því að það eru áætlanir. Og áætlanir geta breyst í framkvæmd, það er bara fullkomlega eðlilegt. Það sýnir lærdómsferli sem kæmi síðan út í ársskýrslu ráðherra þar sem útskýrt er: Við byrjuðum með þetta svona en komust síðan að því að forsendurnar voru aðeins öðruvísi en við bjuggumst við. Þá bættust við fleiri flækjustig, eitthvað svoleiðis, og við brugðumst við því og gerðum þetta því aðeins öðruvísi. Það er bara frábært. Æðislegt. Þá eru stjórnvöld að útskýra fyrir okkur og fyrir framtíðinni hvernig hægt er að gera áætlanagerð betri í kjölfarið. Ef við byrjum ekki einu sinni á að gera þessar áætlanir þá komumst við aldrei í það ástand að byggja ákvarðanir Alþingis um fjárheimildir til verkefna með almannafé á gögnum, upplýsingum um áætlanagerð, á sviðsmyndagreiningu. Þá náum við engum árangri. Eins og ég sagði við hv. þm. Harald Benediktsson: Þetta er pólitík 101, því að án þessara upplýsinga erum við bara að giska. Með þessum upplýsingum hverfur jafnvel pólitíkin af því að þá sjá allir hvaða lausn er best. Þá þarf ekki pólitískt rifrildi um einhverja hugmyndafræði fram og til baka um hvaða möguleika á að velja af því að það er augljóst. Um það snýst pólitíkin; um formið. Við eigum að losa okkur við ágiskunina því að hún er sóun í öllum skilningi þess orðs.

Mig langar til þess að ljúka ræðu minni með því að koma inn á umræðu sem ég er búinn að vera í í fjárlaganefnd, um laun kjörinna þingmanna. Gerð var breyting á lögum árið 2018 þar sem kjararáð var afnumið eftir mjög ógagnsætt ferli þar sem ákvörðun var tekin um breytingu á launum kjörinna þingmanna daginn eftir kosningar 2016. Við spurðum um upplýsingar og gögn, hvernig væri hægt að rökstyðja þá hækkun. Við fengum aldrei neitt svoleiðis þrátt fyrir að þau gögn ættu að liggja fyrir. Við spurðum um þau í nafni upplýsingalaga, þar sem þetta er stjórnsýslubatterí sem átti að vera þarna og átti að halda öllu gagnsæju og aðgengilegu. En það var ekkert svoleiðis til, sem er eins og allt annað hérna. Þau hafa greinilega verið að giska. Kannski var það upplýst, góð ágiskun, en ekki fyllilega nákvæm og ekki byggð á gögnum.

Núna er það þannig að laun ráðamanna, þingmanna og ráðherra uppfærast sjálfkrafa 1. júlí hvert ár. Fyrst þegar lögunum var breytt þá gerðist það rétt fyrir 1. júlí þannig að ákvörðuninni um að hækka launin var frestað til 1. janúar 2019, held ég að hafi verið, nei, það var 2020. Það er alla vega ár þarna á milli. Þetta kjörtímabil er búið að líða svo hratt. Launin áttu að hækka 1. janúar 2020, það er rétt. Það gleymdist að gera það hjá Fjársýslunni, merkilegt nokk. Það gerðist um þremur mánuðum seinna. Þá var gerð afturvirk uppfærsla á launum kjörinna fulltrúa um 6,3%, sem er mjög áhugavert af því að nákvæmlega þá var faraldurinn að byrja og afturvirka launahækkunin var gerð, en launahækkuninni sem átti að verða núna 1. júlí síðastliðinn var frestað þangað til núna um áramótin 2020/2021. Allt í lagi, gott og blessað. Við erum enn þá í kófinu og launahækkunin sem átti að verða 1. júlí 2020 verður gerð núna um áramótin.

Þá spyr ég: Hver er hækkunin? Af því að ég sé hana hvergi í fjáraukanum eða fjárlögunum, ekki við hverju er búist. Það tók ansi langan tíma að fá svar sem átti að liggja fyrir alveg frá því um mitt árið um að laun kjörinna fulltrúa myndu hækka um 3,6% núna um áramótin, sem er mjög áhugaverð prósenta fyrir margra hluta sakir. Almenna launavísitalan hækkaði um 3,4% á árinu 2019, sem þessi launahækkun er miðuð við. Bætur almannatrygginga fyrir 2020 hækkuðu um 3,5%. Allt í lagi. Laun almannatrygginga hækkuðu um 3,5% en laun kjörinna fulltrúa um 3,4%. Gott og blessað. Almenn launavísitala fyrir árið 2019 var 4,9%, en launavísitalan sem miðað er við vegna launa þingmanna og ráðherra er greinilega miðuð við laun starfsmanna ríkisins en ekki allra. Þá sýnir það okkur að laun starfsmanna ríkisins hafa að meðaltali hækkað um 3,4%, sem gæti alveg verið eðlilegt út af lífskjarasamningum þar sem voru krónutöluhækkanir o.s.frv.

Hversu gagnsæ og aðgengileg eru gögnin? Ekkert rosalega, en það barst alla vega minnisblað til fjárlaganefndar núna í morgun þar sem fjallað er dálítið um þessa útreikninga og það er alveg áhugavert að gramsa í þeim. En þeir segja líka að búist sé við að hækkunin, sem á að verða á næsta ári, 1. júlí 2001, verði á bilinu 5,5%–7,4% af greiðslunni, eða eins og gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2021 þá eigi að vera 6,3% aftur eins og það var um síðustu áramót, sem er aftur mjög áhugavert því að það er fyrir árið 2020. Sem sagt: Þróunin á árinu 2020 var 6,3% meðal starfsmanna ríkisins.

Ég sé að áætlun fyrir almannatryggingar er 3,6% fyrir árið 2021, sem fær mig til að klóra mér dálítið í hausnum. Ef þróunin fyrir almannatryggingar fyrir árið 2020 er upp á 3,5% hækkun miðað við launaþróun starfsmanna ríkisins, þingmanna og ráðherra, en hins vegar er 6,3% fyrir árið 2020, þá bendir það okkur enn og aftur á vandann sem við erum í með túlkunina þar og vandann hvað varðar endalausa hækkun og lækkun á launum þingmanna og ráðherra.

Ég er að lokum með dálitla hugmynd sem væri kannski áhugavert að velta fyrir sér varðandi þessi laun, að þau hækki í rauninni bara einu sinni á kjörtímabilinu: Á kjördag hækka laun kjörinna fulltrúa. Það væru væntanlega 10–15% á því tímabili. En á milli kjördaga eru þetta laun kjörinna fulltrúa og þingmanna, þá er ekki verið að fikta neitt í þessu, þá er þetta ekkert vesen, þá er það bara aðskilið frá pólitíkinni innan kjörtímabilsins. Ég held að það gæti verið (Forseti hringir.) dálítið áhugaverð þróun því að starfið er ekki háð því að fylgja nauðsynlega einhverri launaþróun innan kjörtímabilsins. (Forseti hringir.) Launin eru alveg nógu há þó að það gerist ekki.