151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[15:09]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Björn Leví Gunnarsson hélt prýðisræðu, ræddi mikið um þetta ferli sem er formgert í lögum um opinber fjármál. Ég ætla að byrja á því sem snýr að því stefnumarkandi ferli sem lög um opinber fjármál eru og boða okkur að fara eftir og hér erum við að ræða einn þátt þess sem er ríkisfjármálaáætlun. Að baki henni liggur stefnumörkun, stefna ríkisstjórnar, og síðan er þetta útfært frekar í fjárlögum. Þetta er það ferli sem við förum í gegnum.

Hv. þingmaður notaði mikið orðið ágiskun, gisk og ég kem hér upp til að hafna því. Hann blandar þessu við þar sem hann talar um kostnaðarmat og valkostagreiningu. Þessu verður ekkert endilega að blanda saman. Nú ætla ég að útskýra það. Stefna stjórnvalda er alveg skýr, Covid eða ekki Covid. En það vill til að það er Covid og það markar í raun og veru allt fjárlagaferlið sem við erum að fara í gegnum á þessu ári. Af hverju erum við að gera þetta á svo þröngum tímaramma? Jú, af því að það er Covid. Af hverju erum við að einblína á 2021? Af því að stefnan er að koma okkur út úr þessu ástandi. Koma þjóðinni í gegnum þetta. Það er skýr stefnumörkun í mínum huga, hv. þingmaður. Þannig ég hafna því að þetta sé bara gisk. Stefnan er mjög skýr. Við erum að halda okkur við fyrri áform og það er mælt í krónum, 1.000 milljarða umfang í 300 milljarða tekjufalli. (Forseti hringir.) Það er stefna og það er mælt í krónum.