151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[16:37]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir andsvarið. Ég er ekki að gera lítið úr þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin hefur ráðist í, alls ekki, þó að ég hefði í rauninni haft áherslurnar að ýmsu leyti allt öðruvísi en að sumu leyti ekki. Það er sennilega út af því að ég er alls ekki í sama flokki og neinn í ríkisstjórninni og áherslur okkar í Flokki fólksins eru talsvert frábrugðnar á margan hátt.

En nú er ég alveg ringluð. Ég átta mig ekki alveg á spurningunni eða ég er bara orðin svo kölkuð að ég er búin að gleyma. Við vorum bara að spjalla þannig að ég er eiginlega búin að gleyma spurningunni, hv. þingmaður. — Jú, alveg rétt, nú kemur þetta. Nei, ég er ekki að kenna ríkisstjórninni um Covid, alls ekki. Þegar verið er að tala um að færa vandann yfir á næstu ríkisstjórn þá segir það sig náttúrlega sjálft að hugsanlega gæti það orðið sú sama, sem ég býst nú ekki við, og hún situr þá sjálf með eigin vanda í fanginu. Það er verið að rúlla þessu á undan sér. Það sem ég er að tala um eru t.d. sjúkrahúsin og annað slíkt og þessar aðhaldskröfur sem mér finnast t.d. ekki réttar á þessum tímapunkti af því að við erum einmitt að glíma við Covid og af því að Landspítalinn er að glíma við gríðarlegan uppsafnaðan skuldavanda á sama tíma og hann þarf að vera að vesenast í aðhaldskröfu. Það finnst mér ekki rétt áhersla, alls ekki. Ég kem aðeins betur að því í næsta andsvari af hverju ég segi að verið sé að setja allt heila klabbið í fangið á næstu ríkisstjórn.