151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[20:24]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í þessari fjármálaáætlun birtist sú stefna ríkisstjórnarinnar að beita ríkisfjármálum af krafti á meðan áhrifa kórónuveirufaraldursins gætir á íslenskt efnahagslíf, en stefna síðan að sjálfbærni í ríkisfjármálum þegar við höfum komist í gegnum þá tíma. Það krefst töluvert mikilla fórna og þetta verða breyttir tímar. Hér er t.d. sagt að við getum ekki haldið áfram með sama raunvöxt í ríkisútgjöldum og við höfum séð á undanförnum árum og við eigum afskaplega mikið undir því að fá kraftmikið hagvaxtarskeið í kjölfarið á þeim samdrætti sem verið hefur á þessu ári. Þess vegna leggur ríkisstjórnin svona mikla áherslu á að setja peninga í rannsóknir og nýsköpun og styðja fyrirtæki í gegnum erfiðasta tímann, svo viðspyrna sé til staðar þegar mest þarf á að halda. Án hagvaxtar, án kraftmikillar viðspyrnu, bíða okkar töluvert krefjandi tímar við að láta enda ná saman og tryggja sjálfbærni opinberra fjármála að nýju. Þess vegna er mjög undarlegt að heyra menn koma hingað upp (Forseti hringir.) og kalla eftir því að við bætum verulega í á útgjaldahliðinni. (Forseti hringir.) Ég held að menn þurfi aðeins að átta sig á því hvaða tímar bíða okkar.