151. löggjafarþing — 41. fundur,  17. des. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[23:34]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Mig langar til að koma inn á nokkur atriði sem við í Miðflokknum leggjum áherslu á í tengslum við þetta frumvarp og síðan um leið að gagnrýna að nokkru marki þau sjónarmið sem koma fram í nefndaráliti meiri hluta og breytingartillögu hans, eða kannski sérstaklega það sem vantar að mínu mati í breytingartillögur meiri hluta hv. velferðarnefndar. Það er auðvitað svolítið skrýtin staða að finna börn í miðju vinnumarkaðsúrræði, eins og uppleggið er hvað þetta mál varðar. Það má vissulega færa rök fyrir því að fæðingarorlofið sé fært til 12 mánaða úr tíu og við í Miðflokknum styðjum það en sú mikla forræðishyggja sem skín í gegn hvað það varðar að binda hlutfall orlofsins hvoru foreldri fyrir sig er eitthvað sem okkur í Miðflokknum hugnast ekki. Við teljum að frelsið ætti að vera til staðar fyrir foreldra til að skipta fæðingarorlofinu að fullu sín á milli. Þegar öllu er á botninn hvolft verður sá réttur sem skapast með fæðingu barns auðvitað að grundvallast á hagsmunum þess. Við höfum ýmsar aðrar leiðir til að vinna að vinnumarkaðsúrræðum ef vilji er til þess en við í Miðflokknum teljum að hagsmunir barnsins eigi að vera í fyrsta, öðru og þriðja sæti þegar kemur að því að ákvarða með hvaða hætti þessar reglur eru formaðar. Í þeim efnum teljum við skynsamlegast að foreldrum sé treyst til að ráðstafa þessum 12 mánuðum eins og þeir telja best fyrir fjölskylduna, fyrir barnið og þroska þess og velsæld.

Mig langar að byrja stuttlega á breytingartillögu sem fulltrúi okkar í Miðflokknum í velferðarnefnd, hv. þm. Anna Kolbrún Árnadóttir, var með við þetta frumvarp um fæðingar- og foreldraorlof þess efnis að foreldrum verði tryggður sameiginlegur réttur til 12 mánaða fæðingarorlofs sem þeir geti skipt með sér á 24 mánaða tímabili. Breytingartillagan sem við leggjum fram hefur það að markmiði að hún henti barninu sem best. Af því að þessu hefur verið líkt við leikkerfi í fótbolta og talað um fjóra, fjóra, fjóra eða sex, sex eða fimm, fimm, tveir þá leggjum við til tólf, núll, sem sagt að allir 12 mánuðirnir verði til frjálsrar ráðstöfunar milli foreldra. Annað sem við leggjum til og teljum skipta gríðarlega miklu máli er að tímalengd orlofsins verði 24 mánuðir en ekki 18 eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Ástæðan er sú að aðstæður eru auðvitað mismunandi á hverju heimili. Við þekkjum öll umræðuna um vandamál þegar kemur að dagvistun barna. Við í Miðflokknum teljum einfaldlega ekki skynsamlegt að þrengja þennan kost svo mikið hvað tímarammann varðar að þessa 12 mánuði þurfi að nýta að fullu á 18 mánaða tímabili. Við teljum skynsamlegt að horft sé til 24 mánaða tímabils og við leggjum það til í breytingartillögunni.

Hv. þm. Anna Kolbrún Árnadóttir gagnrýnir það jafnframt í nefndaráliti sínu að frumvarpið gangi út frá því að skikka hvort foreldri fyrir sig til að taka sex mánuði innan þessa knappa tímaramma en hvoru foreldri sé leyft að framselja einn mánuð. Nú kemur fram í breytingartillögum meiri hlutans að teygja eigi þennan eina mánuð upp í sex vikur. Þetta hljómar allt eins og hálfgerð hrossakaup eða friðþæging eða vopnahlé, eða hvað við köllum það, milli ríkisstjórnarflokkanna sem greinilega sjá þessa hluti með ólíkum augum. Í því samhengi langar mig til að grípa örsnöggt niður í aldeilis frábæra grein sem fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í velferðarnefnd, hv. þm. Vilhjálmur Árnason, skrifaði á vísi.is í gær þar sem segir, með leyfi forseta:

„Frelsi fylgir ábyrgð en þú getur ekki sýnt ábyrgð nema fá traust. Lýðræðisleg þátttaka ungs fólks og komandi kynslóða er oft nefnd á tyllidögum. Með þeim tillögum sem liggja fyrir Alþingi er ekki hlustað á vilja ungs fólks sem mun búa við þessa löggjöf, þeim er ekki treyst og þau eru ekki virt fyrir að hafa önnur gildi í garð fjölskyldu og jafnréttis en eldri kynslóðir sem tala fyrir þessu frumvarpi og vilja hafa vit fyrir þeim sem yngri eru.“

Ég vil bara þakka hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni fyrir þennan frábæra texta í grein hans um málið. Þar kemur hv. þingmaður jafnframt inn á umræðu um skiptingu fæðingarorlofsins í núverandi kerfi. Þar sem níu mánuðir eru til ráðstöfunar er það kallað þrír, þrír, þrír þar sem þrír mánuðir eru bundnir hvoru foreldri og þrír mánuðir eru til ráðstöfunar. Hv. þm. Vilhjálmur Árnason kallar tillöguna fjórir, fjórir, fjórir sem væri þá í rauninni bara einn mánuður á hvert þessara forma samkvæmt 12 mánaða kerfinu sem tekur vonandi við um áramótin. Það væri kallað fjórir, fjórir, fjórir, þ.e. fjórir mánuðir á hvort foreldri og fjórir mánuðir til frjálsrar ráðstöfunar. En segja má að tillagan, eins og hún liggur fyrir frá hæstv. ráðherra, sé tíu, tveir. Það virðist hafa orðið sátt um það hjá hv. meiri hluta velferðarnefndar að útfæra þetta á endanum sem níu, þrír, sem væri þá væntanlega fjórir og hálfur, fjórir og hálfur, þrír.

Við í Miðflokknum erum bara á móti því að þvæla málið með þessum hætti. Við viljum að þetta sé einfalt og gegnsætt og að hagsmunir barnsins séu í algerum forgangi. Þess vegna leggjum við til að farið verði í tólf, núll, ef svo má segja, að allir 12 mánuðirnir verði til frjálsrar ráðstöfunar. Rétt er að nefna að í umsögnum, m.a. frá landlæknisembættinu, Barnaheill, Ljósmæðrafélagi Íslands, Geðverndarfélagi Íslands og frá ótal mörgum ungum verðandi foreldrum, hefur verið talað skýrt fyrir auknum sveigjanleika. Ég held að við ættum að hlusta á þessi sjónarmið og draga úr forsjárhyggjunni sem hér er alltumlykjandi. Þegar rýnt er í gögnin kemur í ljós að lágmarks- og hámarksgreiðslur skipta í rauninni miklu meira máli en þessi skipting um það hvernig foreldrar nýta rétt sinn til fæðingarorlofs. Það sjáum við á þeim mánuðum sem eru til frjálsrar úthlutunar undir núverandi kerfi. Ég held að við ættum að einbeita okkur að þessum þáttum ef markmiðið er að ná fram vinnumarkaðslegum sjónarmiðum. Ég ítreka bara að við ættum að draga úr þeirri forsjárhyggju sem skín í gegn í því að skilyrða svona hátt hlutfall réttinda hvoru foreldri fyrir sig.

Í umsögn landlæknisembættisins er sérstaklega bent á að aðrar Norðurlandaþjóðir hafi mun meiri sveigjanleika í sínum fæðingar- og foreldraorlofslögum en það sem boðað er í þessu frumvarpi. Aftur finnum við okkur á sama stað og með svo mörg önnur mál undanfarin misseri, þar af eitt umdeilt sem við munum ræða í lokaumræðu á morgun, að það er eins og við séum í einhverju kapphlaupi við að láta forræðishyggjuna ráða sem mestu og stýra þeim mikla fjölda sem tekur að sér foreldrahlutverkið og vex inn í það á hverju ári. Þetta er það sem ég vildi segja um frumvörpin tvö hvað stóru myndina varðar.

Mig langar til að fagna sérstaklega einu atriði sem er lagað í þessu frumvarpi. Það er sú réttarbót sem á sér stað fyrir einstæða foreldra, eins og segir í nefndaráliti meiri hlutans, með leyfi forseta:

„Að mati meiri hlutans er um að ræða mikilvæga réttarbót fyrir einstæða foreldra þar sem þau tilvik þar sem annað foreldrið getur fengið allan fæðingarorlofsréttinn eru útvíkkuð frá gildandi lögum. Réttur barns til að njóta allt að 12 mánaða fæðingarorlofs, þegar einungis annað foreldrið getur nýtt rétt sinn til töku fæðingarorlofs, er þannig tryggður.“

Ég vil fagna þessu sérstaklega og bara halda því til haga að þarna er verið að færa núverandi regluverk til betra horfs hvað þetta varðar.

Ég vil aðeins koma aftur inn á það sem snýr að framsalsheimild foreldra, eins og segir í nefndaráliti meiri hlutans, með leyfi forseta:

„Til þess að mæta sjónarmiðum um aukinn sveigjanleika á töku orlofs og ráðstöfun foreldra sín á milli leggur meiri hlutinn hins vegar til að foreldri verði heimilt að framselja allt að sex vikur af sjálfstæðum rétti sínum til hins foreldrisins.“

Þarna er beinlínis á ferðinni afturför frá því sem nú er hvað svigrúm til ráðstöfunar varðar. Þrátt fyrir að heildarfjöldi mánaða sem til ráðstöfunar eru fari úr tíu í 12 er heildarfjöldinn sem er til ráðstöfunar á milli foreldra í frjálsu vali — nú er ég að tala hlutfallslega — áfram þrír mánuðir. Ef svo illa fer að breytingartillaga okkar í Miðflokknum verður felld á morgun, þar sem við leggjum til fullt frelsi, væri algjört lágmark að fara í fjórir, fjórir, fjórir kerfi þar sem fjórir mánuðir væru bundnir hvoru foreldri og fjórir mánuðir til frjálsrar ráðstöfunar. Þess vegna vil ég lýsa yfir miklum vonbrigðum mínum með að ekki liggi fyrir breytingartillaga eins og hafði verið ýjað að og ég sá fyrir mér að geta glaður stutt ef svo illa færi að tillaga okkar í Miðflokknum, sem gengur lengra, yrði felld á morgun. En svo virðist ekki vera og þetta er nú svona eins og stundum vill verða þegar semja þarf frá hægri til vinstri yfir miðjuna. Þá verður það óttalegur moðreykur oft og tíðum. Það virðist hafa orðið raunin í þessu tilviki.

Mig langar að endingu að ítreka sjónarmið okkar um að hagsmunir barnsins eigi alltaf að vera í algjörum forgangi í máli sem þessu. Við í Miðflokknum munum leggja fram breytingartillögu á morgun sem gengur út á það að foreldrar hafi fullan rétt til að ráðstafa 12 mánuðunum sín á milli eftir því sem hentar hverri fjölskyldu. Jafnframt munum við leggja til að tímaramminn sem fæðingarorlofi er ráðstafað innan verði 24 mánuðir en ekki 18 mánuðir eins og gengið er út frá í frumvarpinu eins og það liggur fyrir. Ég læt þetta duga í bili.