151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

kynrænt sjálfræði.

22. mál
[10:47]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann geri greinarmun á heilsufarsvandamálum annars vegar og félagslegum vandamálum hins vegar, eða hvort hann setji þetta allt saman í sama pakkann. Ástæðan fyrir því að ég spyr er sú að við búum í samfélagi sem er stundum dómhart, sér í lagi þegar við erum á barnsaldri. Það eru alls konar líkamleg einkenni eða andleg einkenni sem fólk getur haft sem fólki er strítt út af eða það bíður á einhvern hátt félagslegan skaða af. Það er að mínu mati í grundvallaratriðum annað vandamál en heilsufarslegt vandamál. Það er ekki heilsufarsvandamál að vera með einkenni sem manni strítt með. Stríðnin er vandamálið þar. Og þegar kemur að ódæmigerðum kyneinkennum sem geta valdið félagslegum vandamálum, lít ég á grunnvandann þar algerlega ólíkum augum en ef um væri að ræða eitthvert líkamlegt vandamál sem gerir viðkomandi erfitt fyrir að eiga heilsusamlegt líf, sem dæmi, eða er heilsufarslegt vandamál í þeim klassíska skilningi. Ástæðan fyrir því að ég spyr út í þetta er að þegar ég les mér til um í frumvarpinu eða nefndarálitinu þá stemmir lýsing hv. þingmanns einfaldlega ekki við það sem ég les. Frumvarpið heimilar aðgerðir sem eru nauðsynlegar af heilsufarsástæðum. Það útilokar hins vegar aðgerðir sem eru einungis til þess að sinna einhverjum félagslegum væntingum eða félagslegri tilætlunarsemi, sem er bara allt annað atriði. Það er sú staðreynd að þetta er annað atriði sem frumvarpinu er ætlað að ná til. Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann: Gerir hann greinarmun á heilsufarslegum ástæðum annars vegar og félagslegum ástæðum hins vegar?