151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

kynrænt sjálfræði.

22. mál
[11:05]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst varðandi sérregluna þá mæli ég með því að frumvarpið sé samþykkt eins og það er. Það eru endurskoðunarákvæði í frumvarpinu. Ég er ekki læknisfræðilega menntuð og ég tel mig ekki vera þess umkomna að geta sagt til um hvaða aðgerðir séu heilsufarslega nauðsynlegar. Í þeim efnum verð ég að treysta á sérfræðinga. Það kom hins vegar fram að rannsóknum fleygir fram og þess vegna væri ástæða til að safna saman upplýsingum og skoða þetta, líka með tilliti til reynslunnar af lögunum. Mér finnst því vel um búið þarna. Þarna er tekið utan um hóp en á sama tíma sagt: Við bætum við okkur þekkingu og skoðum málin í ljósi þess sem þekkingin leiðir fram. Þarna finnst mér því vera vel búið um hnútana.

Hvað varðar það einkenni sem hv. þingmaður nefndi held ég að það sé örugglega misjafnt hvenær börn geta tekið ákvarðanir um slíka hluti. Verið er að byggja það inn að börn hafi stigvaxandi áhrif og hafi í stigvaxandi mæli eitthvað að segja um eigin líkama. Þarna held ég líka að sé búið vel um hluti í frumvarpinu með því að börn og foreldrar fái aðgang að fagfólki varðandi það. (Forseti hringir.) Þannig að mér finnst vera tekið vel utan um þennan fjölbreytileika mannlífsins í þessu frumvarpi.