151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

kynrænt sjálfræði.

22. mál
[11:59]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það þarf kannski ekki að koma á óvart að hv. þingmaður líti ekki á það sem möguleika að menn, þingflokkur og þingmenn, haldi fram sjónarmiðum í þingsal af þeirri ástæðu einni að þeir telji hana rétta, skynsamlega og sanngjarna og góða, það þurfi alltaf að vera einhverjir aðrir hagsmunir undir sem tali til tiltekins hóps. Ég frábið mér slíkt. Ef hv. þingmaður hefði hlustað á ræðu mína (SilG: Ég gerði það.) hefði það verið alveg morgunljóst. Það liggur fyrir að hv. allsherjar- og menntamálanefnd kallaði ekki einu sinni til einn einasta lækni. Síðan var gerð krafa um það hér í þingsal (SilG: Það er rangt.) og málið kallað inn til nefndar. (SilG: Það er rangt.) Var ekki fundur í allsherjar- og menntamálanefnd í gær (Gripið fram í.) þar sem læknar og landlæknir komu fyrir nefndina? Var það ekki þannig? Ég er ekki nefndarmaður. Hv. þingmaður upplýsir mig kannski ef svo var ekki. Mínar upplýsingar eru þær að skautað hafi verið hér um bil algjörlega fram hjá allri læknisfræðilegri umræðu í nefndinni (SilG: Það er rangt.) og það undirstrikar það sem segir í umsögn Intersex Íslands með hvaða hætti lúkningu starfshópsins var háttað. Ég vísa hér til umsagnar Læknafélags Íslands, sem skoðast í enn öðru ljósi þegar nú fyrir liggur að þetta var ekki tekið upp fyrr en á síðasta fundi starfshópsins sem undirbyggir þetta mál allt. Þar segir, með leyfi forseta:

„LÍ leggur áherslu á að ekki verði haggað við því ákvæði frumvarpsins að heimilt verði að breyta kyneinkennum barns varanlega þó að það sé undir 16 ára aldri, ef heilsufarslegar ástæður krefjast þess, enda fari fram ítarlegt mat á nauðsyn breytinganna og afleiðingum þeirra …“

Það sjónarmið sem þarna kemur fram verður auðvitað að skoðast í því samhengi sem fram kemur í umsögn Intersex Íslands um hvernig þessi mál voru rædd í nefndinni.