151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

horfur um afhendingu bóluefnis vegna Covid-19, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[12:33]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Hæstv. ráðherra flutti hér almennt yfirlit um sögu mála og það sem hæstv. ráðherrann telur svona nokkurn veginn að verði framhaldið. En tilefni þessarar umræðu er sú tilkynning sem barst og sóttvarnalæknir greindi frá, að verulegar tafir yrðu á afhendingu a.m.k. hluta bóluefnisins, og það myndi þýða að við þyrftum að búa við einhverjar lokanir eða takmarkanir fram á síðari hluta næsta árs. Hæstv. forsætisráðherra sagði í gærkvöldi að þetta væri vegna hráefnisskorts hjá Pfizer-fyrirtækinu og einhverra annarra vandamála þar við framleiðsluna. En nú hefur fyrirtækið sent frá sér tilkynningu um að það séu engin vandkvæði á framleiðslunni. Því er eitthvert misræmi í hér og þessi umræða taldi ég að væri til þess ætluð að við þingmenn fengjum betri upplýsingar um hvar þetta stendur, hvort þessar tafir verða eða ekki, og ef af töfunum verður, hvernig verði þá brugðist við þeim.

Getur ekki verið, herra forseti, að það hafi hugsanlega verið mistök að binda trúss sitt við ESB í þessum málum? Eða er það engin hindrun að mati hæstv. ráðherra? Bretland er fyrir allnokkru síðan byrjað að bólusetja sitt fólk af fullum krafti með þessu Pfizer-bóluefni, en hér eru einhverjar hindranir í veginum og því eðlilegt að ráðherra upplýsi þingið um hverjar þær eru.

Hvers vegna geta Bretar bólusett sitt fólk og hafa gert um nokkurt skeið en við ekki hér á Íslandi?