151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

horfur um afhendingu bóluefnis vegna Covid-19, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[12:39]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Ég vil nú byrja á því að taka undir orð hæstv. heilbrigðisráðherra um að það sé vissulega mikið gleðiefni að við skulum vera komin á þann stað að vera að bíða eftir bóluefni. Ég vil líka taka undir og árétta að ég held að menn verði að búast við því og það er ekkert furðulegt eða undarlegt við það þótt einhverjir hnökrar verði á afhendingu á þessu bóluefni, jafn víðtæk og sú dreifing er fyrirhuguð úti um allan heim. Menn mega ekki missa þróttinn þótt það gerist. En þess þá heldur er mikilvægt að væntingar manna séu hér á landi og annars staðar í heiminum í samræmi við eðlilegar sviðsmyndir sem upp geta komið. Mér heyrist að við stöndum nokkuð vel hvað þetta varðar og séum að fá einhver bóluefni.

Ég hef aðallega tvær spurningar til hæstv. heilbrigðisráðherra. Sú fyrri lýtur að hinu eðlilega lífi sem okkur var lofað. Það mætti kannski segja að almenningi hafi verið seld sú hugmynd í ágúst þegar landinu var lokað að hér gæti verið eðlilegt líf í haust. Það hefur ekki orðið raunin. Nú er loksins farið að tala um hjarðónæmi sem var einhvers konar bannorð, ef ég man rétt, í upphafi þessa faraldurs en er auðvitað ekkert annað en eðlilegt ferli í lífi veirufaraldurs, þ.e. að menn leitist við að ná hjarðónæmi með ýmsum hætti, ekki bara einni aðferð. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra sérstaklega út í áform stjórnvalda. Það liggur fyrir t.d. að dánarhlutfall meðal yngra fólks er hverfandi á meðan það er hátt á meðal eldra fólks en samt virðast menn boða það hér að ekki verði létt verulega á sóttvarnaaðgerðum fyrr en búið verði að bólusetja þorra almennings, ef ég skil hæstv. ráðherra rétt. Mig langar að fá svar við þessu vegna þess að ungt fólk hefur búið við mjög miklar takmarkanir sem eru líklega að marka t.d. menntun þeirra til frambúðar. Getur hæstv. heilbrigðisráðherra (Forseti hringir.) svarað því hver markmið stjórnvalda eru með bólusetningunni fyrirhugaðri?