151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

horfur um afhendingu bóluefnis vegna Covid-19, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[12:45]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Eins og hv. þingmaður hefur ítrekað haldið til haga þá skiptir auðvitað mjög miklu máli í lýðræðissamfélagi að spurninga sé spurt og ekki síst þegar verið er að ræða takmarkanir á athafnafrelsi fólks. Mér finnst því fullkomlega eðlilegt að fólk velti því upp. Það verður alltaf að gera þá kröfu til stjórnvalda að gætt sé að málefnalegum sjónarmiðum, meðalhófi og jafnræði við allar ákvarðanir. Ég veit að hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur verið að fjalla sérstaklega um þessi mál, sem er afar mikilvægt. Upplýsingar um samanburð á hættu á einstökum svæðum hafa legið fyrir og sóttvarnalæknir hefur gert grein fyrir því og eftir því sem ég best veit hefur það komið fram á heimasíðu embættis landlæknis. Að því er varðar forsendur ákvarðanatöku hef ég lagt mig fram um það að minnisblað sóttvarnalæknis til mín séu alltaf opinber gögn.