151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

horfur um afhendingu bóluefnis vegna Covid-19, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[12:56]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem kemur fram í máli hv. þingmanns að þarna er að mörgu leyti um að ræða hefðbundnari nálgun. Við undirrituðum samninga við AstraZeneca 15. október og tryggðum þar tæplega 230.000 skammta sem duga fyrir 115.000 einstaklinga. Rannsóknarfasa þrjú er lokið og niðurstöður hafa verið birtar í ritrýndu tímariti. Þær bíða nú staðfestingar Evrópsku lyfjastofnunarinnar og á grundvelli þess sækir AstraZeneca síðan um markaðsleyfi. Vonir standa til þess að leyfið verði gefið út í janúar, febrúar, eins og ég gat um áðan. Áætlun AstraZeneca um afhendingu efnisins hefur ekki tekið neinum breytingum á síðustu dögum og vikum. Gert er ráð fyrir að bóluefnið berist Evrópusambandsríkjum, og Íslandi, þegar markaðsleyfi hafa verið gefin út. Það er nokkurn veginn það sem við getum sagt núna. En á hversu langan tíma það dreifist, ég hef ekki svör við því. En það liggur algerlega fyrir að við höfum þarna undirritaða samninga sem duga fyrir tæplega 115.000 manns.