151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

horfur um afhendingu bóluefnis vegna Covid-19, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[13:02]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Úthaldið og seiglan sem við höfum sýnt á Íslandi í þessum faraldri byggir rosalega mikið á því að upplýsingarnar skiluðu sér til landsmanna. Þetta var mjög vel gert í upphafi. Þá sá maður hvað margir voru að veikjast, hvað margir voru á gjörgæslu. Það var sett rosalega skýrt fram. Hægt var að fylgjast með í rauntíma, sem gefur manni mikið traust, gefur manni frið og það að maður hefur einhvern fyrirsjáanleika og sér hvert hlutirnir stefna. Í haust var síðan bætt í. Sett var upp mjög flott, myndræn framsetning á nýjustu sóttvarnaráðstöfunum, og hverjar takmarkanirnar eru í dag. Diskókúlan, það sem var blátt var bannað, barir og skemmtistaðir o.s.frv., af því að við vitum að samkvæmt öllum gögnum eru mestu líkurnar á smitum þar. Líka komu fram upplýsingar um helstu áhættuþættina.

Mig langar að spyrja ráðherra hvort hún gæti fengið sitt fólk til að setja upp hvernig bólusetningarmyndin lítur út, þ.e. sú varða að á þessum tímapunkti séum við búin að bólusetja allt viðkvæmasta fólkið og þar af leiðandi (Forseti hringir.) séum við miklu líklegri til að vera á þessu gráa svæði (Forseti hringir.) varðandi nýja normið.

Svo alveg í lokin: Þegar maður hefur verið bólusettur er maður kominn með 90–95% ónæmi. Hvernig eykst frelsi slíks hóps, (Forseti hringir.) þeirra einstaklinga sem hafa verið bólusettir? Því að þeir eru sem hópur komnir með hjarðónæmi.