151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

horfur um afhendingu bóluefnis vegna Covid-19, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[13:04]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Af því ég hef bara eina mínútu í seinni gusunni ætla ég að segja hv. þingmanni frá því að í gær kom á vef heilbrigðisráðuneytisins myndræn framsetning sem er afar góð en er í raun og veru um samningaviðræðurnar, þ.e. frá því að samningur ESB við lyfjaframleiðenda liggur fyrir, gegnum fasa þrjú í prófunum, samningur Íslands undirritaður, Lyfjastofnun Evrópu gefur leyfi, Lyfjastofnun Íslands gefur leyfi, efnið komið til Íslands og bólusetning hafin. Síðan gefur augaleið að við þurfum að búa til nýja tímalínu sem snýst um að bólusetning sé hafin og áætlun lokið.

Til þess að við getum verið með svona skýra áætlun, eins og hv. þingmaður talar um, þurfum við að vita meira um magnið og tímasetningarnar til að við höfum þær forsendur sem þarf. En ég er sannarlega talskona þess að við gerum það. Það skiptir mjög máli í þessum efnum að fyrirsjáanleikinn sé þó eins mikill og nokkur kostur er miðað við alla þá óvissuþætti sem við sitjum uppi með.