151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[14:25]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér er á ferð mikið framfaraskref, að lengja fæðingarorlof og reyna að auka jafnrétti í landinu en á þessum tímapunkti er mér mikil sorg í hjarta vegna þess að rétt áður en við hófum þennan þingfund kom í ljós að meiri hlutinn, stjórnarflokkarnir, treystir sér ekki til þess að tryggja og styðja við brotaþola með ungbörn, treystir sér ekki til þess að láta brotaþola með ungbörn fá tilfærslu réttinda þannig að þau börn sem búa á slíkum heimilum fái 12 mánuði eins og önnur börn. Mér er svo þungt í hjarta yfir þessari staðreynd og ætla að áframsenda skilaboð sem ég fékk í morgun af vígvelli um það hvernig málin eru raunverulega í kerfinu okkar af því að nálgunarbanni er eiginlega aldrei beitt gagnvart barni, jafnvel þótt ofbeldið eigi sér stað þegar móðir heldur á barni í fanginu.